Margir stappað stálinu í miðflokksmenn

Bergþór Ólason á Alþingi.
Bergþór Ólason á Alþingi. mbl.is/​Hari

Erfitt er að svara því hvenær Miðflokkurinn hættir málþófi sínu í tengslum við þriðja orkupakkann, að sögn Bergþórs Ólasonar, þingmanns flokksins. Hann segir Miðflokkinn hafa fengið stuðning víðs vegar að úr samfélaginu þar sem fólk hefur stappað í þá stálinu.

„Skipulag þingstarfanna er á forræði forseta Alþingis. Við höfum lagt til að málið verði tekið af dagskrá. Það hefur ekkert gerst í þeim efnum. Við höfum lagt til þrjár útfærslur á því hvernig við sæjum málin þokast áfram en enn sem komið er hefur forseti ákveðið að láta þetta eina mál vera á dagskrá og ekki tekið tillit til þessara óska,“ segir Bergþór.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Eggert

Utanríkisráðherra er viðstaddur þingfundinn sem hófst klukkan 15.30 en þingmenn Miðflokksins hafa kallað eftir svörum frá honum. Bergþór fagnar komu hans. „Það hefur vakið mikla athygli að hann gerði sérstaka athugasemd við það að Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins] væri ekki viðstaddur við fyrstu umræðuna þegar hann var í erindagjörðum á vegum þingsins erlendis. Okkur hefur þótt það eðlilegt að ráðherra kæmi hér og ætti orðastað við okkur. Það er loksins að gerast núna eftir 70 tíma umræðu.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Hari

Spurður út í ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, þar sem hann sendi miðflokksmönnum baráttukveðjur segir Bergþór ánægjulegt að heyra þau. „Það er í takti við þann stuðning sem við finnum í héðan og þaðan úr samfélaginu og ekki endilega bara frá stuðningsfólki Miðflokksins.  Við vitum að þetta hefur verið mjög umdeilt mál í baklandi til dæmis allra ríkisstjórnarflokkanna. Það eru að berast kveðjur víða að þar sem fólk stappar í okkur stálinu. Það þarf ekki að fara í felur með að það eru ekki margir hér á þinginu með okkur í liði,“ segir hann.

mbl.is/​Hari

Forseti Alþingis hvatti miðflokksmenn  í morgun til að hugsa sinn gang eftir enn eina nóttina sem fór í umræðuna um þriðja orkupakkann. Bergþór segist á móti hafa hvatt Steingrím til að taka málið af dagskrá og fresta því til að koma öðrum málum að. Hann bendir á að minnihluti ræðanna hjá miðflokksmönnum hafi verið á áætluðum fundartímum. „Flestar þessar ræður eru fluttar á næturfundum eða aukafundum sem voru ekkert hluti af starfsáætlun. Það er ekki eins og að við séum að hertaka starfsáætlun þingsins í heild sinni heldur er forseti að nýta þau tæki sem hann hefur til að stýra þessu og hefur tekið ákvörðun um að hleypa engu öðru máli á dagskrá og á því getum við ekki borið ábyrgð.“

Bára Halldórsdóttir
Bára Halldórsdóttir mbl.is/Eggert

Stutt er síðan Persónuvernd úrskurðaði að Bára Halldórsdóttir hefði brotið af sér með upptöku sinni á  barnum Klaustri. Inntur eftir því hvort Miðflokkurinn ætli í skaðabótamál gegn henni segist Bergþór ekki hafa lesið dóminn og að enginn ákvörðun hafi verið tekin um framhaldið. „Það var ekki farið í þessa vegferð hvað persónuverndarmálið varðar til þess að sækja fúlgur fjár í hirslur Báru Halldórsdóttur. Við vildum fyrst og fremst leiða það í jörð hvort svona hlerun væri heimil ef um væri að ræða stjórnmálamenn og nú er sú niðurstaða komin að svo er ekki. Mér finnst sú niðurstaða góð og umhverfið heilbrigðara að því virtu. En frekari ákvarðanir í málinu hafa ekki verið teknar vegna anna,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert