Óvissa á þinginu „eins og venjulega“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vakti athygli á fjölda mála …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vakti athygli á fjölda mála sem ekki hafa komist til umræðu á Alþingi, meðal annars sökum málþófs þingmanna Miðflokksins um þriðja orkupakkann sem staðið hefur yfir síðustu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú hafa 15 þingmál Pírata komist í gegnum 1. umræðu en eru föst í nefnd. 29 þingmálum Pírata hefur ekki einu sinni verið hægt að mæla fyrir. Sá listi er langur og góður,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í morgun undir liðnum störf þingsins.

Hann nýtti tækifærið og vakti athygli á þeim fjölda mála sem ekki hafa komist til umræðu á Alþingi, meðal annars sökum málþófs þingmanna Miðflokksins um þriðja orkupakkann sem staðið hefur yfir síðustu daga.

Málin 29 snúast meðal annars um fullgildingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof og frumvarp um rafræn fasteignaviðskipti.

Björn Leví segir í samtali við mbl.is að það sé ólíðandi að málum, sem legið hafi fyrir síðan í september, áður en þing hófst, hafi ekki verið mælt fyrir. „Algjörlega óháð öllum öðrum aðstæðum,“ segir Björn Leví og vísar í umræður um þriðja orkupakkann á Alþingi síðustu daga og vikur.

Í upphafi þingfundar í morgun voru 35 mál á dagskrá þingsins. Umræða um orkupakkann var á dagskrá að loknum umræðum um störf þingsins en henni var frestað á meðan forystumenn funda og leita leiða til að ná samkomulagi vegna umræðunnar um þriðja orkupakkann.

Fundurinn hófst klukkan 11 og á meðan hefur Alþingismönnum tekist að afgreiða nokkur mál. „Ég veit ekkert hvernig þetta fer, maður veit ekki einu sinni í hvaða röð málin eru tekin fyrir, hvað þá annað,“ segir Björn Leví.

Þá segir hann óvissu á þinginu ekki vera nýja af nálinni. „Þingið er, eins og venjulega, undir mikilli óvissu. Maður veit með litlum fyrirvara hvenær mál fara á dagskrá hvort sem er, maður er vanur að starfa í þessari óvissu og verður að taka því hlaupandi og lenda á fótunum.“

Björn Leví segir eitt mál ekki mikilvægara en annað sem er á dagskrá þingsins, heldur leggur hann áherslu á þann fjölda mála sem enn eiga eftir að komast á dagskrá þingsins. „Það eru ansi mörg sem eru ekki komin á dagskrá en eru komin úr nefnd.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert