Uppfærðu svör um orkupakkann

Atvinnuvegaráðuneytið segir breyttan texta í færslunni „spurt og svarað um …
Atvinnuvegaráðuneytið segir breyttan texta í færslunni „spurt og svarað um þriðja orkupakka ESB“ vera uppfærsla sem gefur ítarlegri svör.

Færslan á heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins undir heitinu „spurningar og svör um þriðja orkupakka ESB“ sem birt var í nóvember á síðasta ári, var breytt fyrsta apríl síðastliðinn. Ráðuneytið segir að um uppfærslu sé að ræða og að hún sé ítarlegri en fyrri útgáfa, að því er fram kemur í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Í fyrri útgáfu færslunnar, sem ráðuneytið hefur enn aðgengilega á vefnum, var undir liðnum „leiðir þriðji orkupakkinn til lagningu sæstrengs?“ meðal annars velt upp sjónarmiði í umræðunni um að almennar reglur EES-samningsins mögulega gerðu það óheimilt að banna lagningu sæstrengs til rafmagnsflutninga milli Evrópu og Íslands.

Þessi hluti svarsins við fyrrnefnda spurningu er ekki að finna í nýrri útgáfu ráðuneytisins.

Ekki sjónarmið ráðuneytisins

Þá sagði í fyrri útgáfu að því hafi „verið velt upp, að þó að fjórfrelsisreglur EES-samningsins komi ekki í veg fyrir að strengur á íslensku forráðasvæði og önnur mannvirki sem honum tengjast séu háð leyfum sem byggja á lögmætum sjónarmiðum, þá geri þær mögulega að verkum að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs.“

„Sé það raunin er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi, og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum,“ stóð að lokum á vef ráðuneytisins.

Í fyrirspurn sem mbl.is sendi ráðuneytinu var meðal annars spurt hvort ráðuneytið hafi breytt mati sínu á þessum fyrrgreinda þætti. Atvinnuvegaráðuneytið segir: „Þarna er verið að vitna í það sem fram hafði komið í opinberri umræðu á þeim tíma um þriðja orkupakkann. Ráðuneytið hefur ekki tekið undir slík sjónarmið, hvorki í þessum texta né annarsstaðar.“

Segja uppfærsluna ítarlegri

Í svari ráðuneytisins kemur fram að það telur uppfærsluna „nokkuð ítarlegri en sú fyrri.

Þá hafi hún verið „sett fram í ljósi þess að frá nóvember 2018 til apríl 2019 höfðu ýmsar frekari spurningar komið fram í opinberri umræðu um þriðja orkupakkann. Var síðari útgáfan því sett fram af hálfu ANR í þeirri viðleitni að reyna að upplýsa og skýra málið með almennum hætti og bregðast við þeim spurningum sem fram höfðu komið.“

Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert