„Á ég að kveikja í?“

Úr dómsal í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.
Úr dómsal í Héraðsdómi Suðurlands í morgun. mbl.is/Teitur Gissurarson

Konan sem ákærð er fyrir almannahættubrot, með því að hafa látið hjá líða að gera það sem í hennar valdi stóð til þess að vara við eldsvoða, sagði við skýrslutöku í morgun að karlmaðurinn sem einnig er ákærður í málinu hefði farið aftur inn í húsið til þess að reyna að bjarga þeim sem inni voru. Maðurinn hafi fyrr um daginn spurt konuna hvort hann ætti að kveikja í.

Karlmaðurinn sem ákærður er minntist ekki á þetta sjálfur þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi.

„Bull og vitleysa“

Við skýrslutöku í morgun lýsti konan sem ákærð er sambandi hennar og karlmannsins sem er ákærður sem „drykkjufélagar“. Þau hafi þekkst um nokkurn tíma og hún hafi fengið að vera hjá honum í húsinu að Kirkjuvegi við og við, og hafi verið búin að vera þar um nokkurn tíma þar til Kristrún Sæbjörnsdóttir og Guðmundur Bárðarson, sem létust í brunanum, hafi byrjað að halda þar til. „Þetta var bara bull og vitleysa,“ sagði konan um ástæðuna fyrir því að hún hafi farið eftir að Guðmundur og Kristrún fóru að koma í húsið. Eilíf slagsmál og rifrildi hafi átt sér stað í húsinu og slæm samskipti.

Konan lýsti því sem svo að maðurinn sem er ákærður hafi daginn sem húsið brann verið Kristrúnu reiður vegna þess að hún og Guðmundur hafi stolið frá honum. Þá sagði hún að hann hafi verið að fikta með eld, og kveikt í pizzukassa, en hún hafi slökkt í honum með bjór. 

Konan sagði að maðurinn hefði farið aftur inn í húsið …
Konan sagði að maðurinn hefði farið aftur inn í húsið til að reyna að bjarga fólkinu sem þar var. Maðurinn minntist ekki á það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reyndi að bjarga þeim sem inni voru

Eins og víða hefur komið fram voru Guðmundur og Kristrún á efri hæð hússins þegar húsið brann.

Konan sagðist muna eftir því að maðurinn sem einnig er ákærður hefði spurt hana: „Á ég að kveikja í?“, en hún hafi eftir það farið á klósettið, verið þar nokkra stund, og komið svo fram og þá hafi eldurinn verið farinn að breiðast um húsið. Hún hafi hlaupið út, séð manninn sem kvaðst vera að hringja í Neyðarlínuna. Hún vissi því ekki hvort maðurinn kveikti í gardínum hússins.

Eins og áður segir sagði hún að maðurinn hefði farið inn í húsið til að reyna að bjarga þeim sem voru inni, en hafi komið aftur út einn síns liðs og þá hafi „komið upp úr honum“ mikill reykur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert