Vettvangsrannsókn lokið í Múlakoti

mbl.is/Eggert

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið vettvangsrannsókn vegna flugslyssins sem varð við Múlakot í Fljótshlíð í gærkvöldi. Ragnar Guðmundsson, hjá rannsóknarnefndinni, segir að rannsóknin hafi staðið yfir í alla nótt, en að búið sé að koma flaki vélarinnar fyrir á bíl og að flakið verði nú flutt í rannsóknarskýli til frekari rannsóknar.

Ragnar var enn á vettvangi þegar mbl.is ræddi við hann, en auk hans hefur annar starfsmaður rannsóknarnefndarinnar komið að rannsókninni og fjórir björgunarsveitarmenn. Þá voru starfsmenn tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt sem aðstoðuðu við rannsóknina.

Ragnar segir að vettvangur slyssins hafi verið mjög stuttur, en út frá myndum virðist flugvélin hafa skollið skarpt niður. Greint var frá því að eldur hafi komið upp í flugvélinni eftir brotlendinguna. Ragnar segir að eldur hafi komið upp í vinstri væng, en ekki í meginflakinu sjálfu. Að öðru leyti sagði hann ekki hægt að tjá sig nánar um rannsóknina.

Flugslysið varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð …
Flugslysið varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð á Suðurlandi um klukkan hálfníu í gærkvöld. Kort/Google Maps
mbl.is