Allt gengið vel og enginn sjóveikur

Herjólfur kom við í Færeyjum á miðvikudag og kemur til …
Herjólfur kom við í Færeyjum á miðvikudag og kemur til Eyja í kvöld. Ljósmynd/Albert Kemp

„Við nálgumst Vík á hægri siglingu,“ segir Gísli Valur Gíslason, einn skipstjóra Herjólfs, við mbl.is. Nýr Herjólfur er væntanlegur til Vestmannaeyja í kvöld og verður formleg móttökuhátíð vegna þess á morgun.

Herjólfur lagði af stað frá Gdynia Í Póllandi, þar sem nýr Herjólf­ur var smíðaður, á sunnudagsmorgun þaðan sem stefnan var sett á Vestmannaeyjar fyrir utan stutt stopp í Færeyjum.

Gísli segir að gert sér ráð fyrir því að skipið verði við Vestmannaeyjar um klukkan sex í kvöld. „Við verðum tollaðir um klukkan átta og förum inn eftir miðnætti og tæmum dekkið,“ segir Gísli.

Fréttaritari mbl.is náði þessari mynd af Herjólfi nú síðdegis þar …
Fréttaritari mbl.is náði þessari mynd af Herjólfi nú síðdegis þar sem hann sigldi framhjá Vík í Mýrdal. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Formleg móttökuathöfn í Friðarhöfninni í Vestmannaeyjum hefst klukkan 14:15 á morgun. Samgönguráðherra, forstjóri Vegagerðarinnar, formaður bæjarráðs og fulltrúi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs flytja þá ræður. Prest­ur Landa­kirkju mun blessa skipið og Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra form­lega nefna það.

Í fram­haldi verður skipið bæj­ar­bú­um og öðrum gest­um til sýn­is. Boðið verður upp á veit­ing­ar, skemmti­atriði og fleira milli klukk­an 14:30 og 16.

Tekur tíma að kynnast skipinu

„Ég hugsa að það verði fín mæting á þetta,“ segir Gísli en hann telur að töluverð spenna sé í Eyjunni vegna komu nýju ferjunnar. 

Nýr Herjólf­ur rist­ir grynnra en sá gamli og því þarf ekki að dýpka jafn mikið fyr­ir nýtt skip. Mun það auðvelda og flýta fyr­ir dýpk­un og mun fækka dög­um sem ekki er unnt að sigla í Land­eyja­höfn.

Gísli segir að það muni taka tíma að læra á skipið og kynnast því. „Líkt og það var þegar Landeyjahöfn opnaði. Menn voru bara að átta sig á aðstæðum.“

Hann segir að siglingin heim á leið hafi gengið vel og hlær og svarar því neitandi hvort einhver um borð hafi orðið sjóveikur. 

„Við fengum alveg skítaveður í Norðursjónum og þar var smá veltingur. Það hefði örugglega ekki verið fyrir alla.“

Guðbjartur Ell­ert Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Herjólfs ohf., sagði í samtali við mbl.is á sunnudaginn að vonir stæðu til að nýja skipið verði kom­inn í al­menn­an rekst­ur milli lands og Eyja um næstu mánaðar­mót, að því gefnu að allt gangi upp.

mbl.is