Mjaldrarnir lenda á miðvikudag

Mjaldrarnir verða fluttir í sérútbúnum bíl.
Mjaldrarnir verða fluttir í sérútbúnum bíl. Ljósmynd/TVG-Zimsen

Mjaldrarnir Little Grey og Little White koma til Íslands á miðvikudag og verður þeim komið fyrir í sjókví í Vestmannaeyjum. Mjaldrarnir áttu upphaflega að koma í apríl en för þeirra var frestað vegna veðurs. Nú er hins vegar allt klárt fyrir komu þeirra.

Mjaldrarnir verða fluttir með flugvél Cargolux frá Shanghæ í Kína til Íslands og er áætluð lending í Keflavík á miðvikudagsmorgun klukkan 10.30. TVG-Zimsen sér svo um flutning mjaldranna á sérútbúnum flutningabílum til Landeyjahafnar þar sem Herjólfur tekur við.

„Undirbúningurinn hefur verið langur og strangur og staðið yfir í hálft ár. Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni sem mun án efa vekja mikla athygli um allan heim,“ segir Sigurjón Ingi Sigurðsson hjá sérverkefnadeild TVG-Zimsen.

„Mjaldrarnir verða fluttir í sérútbúnum tönkum sem þeir eru settir í í dýragarðinum í Sjanghæ. Mjaldrarnir eru síðan fluttir í tönkunum úr flugvélinni og þaðan í sérútbúna í vagna á Keflavíkurflugvelli sem munu flytja þá til Landeyjahafnar. Hvor mjaldur fyrir sig er um eitt tonn að þyngd. Heildarþyngd á hvorum tank er um 9 tonn,“ útskýrir Sigurjón.

Þjálfararnir í talstöðvarsambandi við mjaldrana

Það verði mikil vinna þegar þeir lenda á Keflavíkurflugvelli. „Það verður að skipta um vatn í báðum tönkunum þar sem um eitt til tvö tonn af vatni eru tekin úr þeim og nýtt vatn sett í þá. Mjaldarnir eru í sóttkví og bílarnir fara síðan í sóttkví líka um leið og þeir fara inn í bílanna. Þjálfarar mjaldranna geta verið í talstöðvarsambandi við þá í vögnunum. Það er sérstakt talstöðvar- og myndavélarkerfi í tönkunum og þjálfararnir sitja frammi í hjá bílstjórunum og fylgjast vel með mjöldrunum. Þetta verður krefjandi en mjög skemmtilegt verkefni. Við ökum Suðurstrandarveginn og erum með fjögur öryggisstopp á leiðinni þar sem verður stoppað og kíkt á mjaldrana. Fyrsta stopp er í Grindavík, annað stopp á Selfossi og við erum síðan með tvo aðra staði sem verður stoppað á ef á þarf að halda á leið til Landeyjarhafnar,“ segir Sigurjón.

Hann segir að sérverkefnadeild TVG-Zimsen hafa mikla reynslu af ýmiss konar sérhæfðum flutningum, meðal annars fyrir stóra tónleika, kvikmyndir, dýrmæta listaverkaflutninga, ýmis leiguverkefnum á flugvélum og skipum og nú bætist hvalir við. „Breiddin er því orðin mjög mikil hjá okkur í sérverkefnaflutningunum.“

Mjaldarnir verða fluttir með flugvél Cargolux frá Shanghæ í Kína …
Mjaldarnir verða fluttir með flugvél Cargolux frá Shanghæ í Kína til Íslands og er áætluð lending í Keflavík á miðvikudagsmorgun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is