Hafi heykst á að samþykkja eigin tillögu

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að meirihlutinn hafi guggnað við …
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að meirihlutinn hafi guggnað við að samþykkja eigin tillögu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, segir að reglur borgarinnar um hagsmunaskráningu séu enn óbreyttar þar sem meirihlutinn hafi heykst á að samþykkja eigin tillögu „á síðustu stundu“ á borgarstjórnarfundi í gær.

Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook, en þar rekur hann að fyrir tíu mánuðum hafi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lagt til að hagsmunaskráning væri aukin. 

„Síðustu mánuði hefur forsætisnefnd unnið að nýjum reglum sem eru í raun samhljóða nýjum reglum Alþingis. Þessar reglur voru lagðar í dag fyrir borgarstjórn til samþykktar með þeim fyrirvara að þær brjóti ekki lög um persónuvernd,“ segir hann. „Þegar á hólminn var komið gerðist tvennt: Meirihlutinn vildi breyta reglunum eftir að umræða hófst. Meirihlutinn lagði til að málinu yrði vísað til borgarráðs,“ segir Eyþór, en hann segir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks hafa verið tilbúna að samþykkja reglurnar, en ekki hafi verið gefið færi á atkvæðagreiðslu.

Meirihlutinn hafi mætt óundirbúinn

Í staðinn var farið að gefa eitt og annað í skyn og farið að ræða um málefni einstaklinga og að einhver „kunni að þurfa að segja eitthvað“ ef reglum væri breytt,“ segir hann og bendir á að fyrr á borgarstjórnarfundinum hafi verið samþykktar nýjar siðareglur þar sem sérstaklega væri kveðið á um að borgarfulltrúar mættu undirbúnir.

Það að leggja fram nýjar reglur um hagsmunaskráningu fyrir borgarstjórn og draga þær svo til baka á síðustu stundu eftir að umræða hófst um þær á þeim forsendum að eitthvað vanti í þær eftir að þær eru afgreiddar úr forsætisnefnd er ekki dæmi um góðan undirbúning. Þvert á móti,“ segir Eyþór. „Niðurstaðan er sú að hagsmunaskráningin er óbreytt vegna þess að meirihlutinn heyktist á að samþykkja eigin tillögu á síðustu stundu,“ segir hann.

mbl.is