Hvað er íslenskt og hvað ekki?

Ferðamenn virða fyrir sér vörur í Nordic Store í miðbæ …
Ferðamenn virða fyrir sér vörur í Nordic Store í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framleiðendur lopapeysa á Íslandi eru ekki ánægðir með aukna framleiðslu lopapeysa í Kína sem seldar eru undir þeim formerkjum að vera íslenskar. Þó að notuð sé íslensk ull til framleiðslunnar þar eystra þykir handbragðið sjálft ekki vera það sama.

Matvælastofnun barst í lok maí umsókn frá framleiðendahópi á handprjónuðum íslenskum lopapeysum þar sem sótt var um vernd fyrir afurðarheitið „ís­lensk lopa­peysa“, og var Handprjónasamband Íslands í forsvari fyrir umsókninni.

Tilefnið fyrir umsókninni er aukin sala „íslenskra lopapeysa“ sem framleiddar eru erlendis, aðallega í Kína, en eru seldar ferðamönnum sem íslensk afurð.

„Fólk kaupir innfluttar peysur og heldur að það sé alvöru hluturinn. En það er það ekki,“ sagði Þuríður Einarsdóttir, stofnandi Handprjónasambandsins í samtali við CBS-fréttaveituna. 

Samkvæmt CBS eru nú um tveir þriðju hlutar af seldum lopapeysum innfluttar frá Kína og hefur sú staðreynd aukið á áhyggjur íslenskra framleiðenda.

Ein andmæli hafa borist 

Bjarni Jónsson, eigandi Nordic Store, sagði við CBS að það sé ekki augljóst hvað sé íslenskt og hvað ekki ef innfluttar peysur úr íslenskri ull séu það ekki. „Hvað ef pólskur íbúi á Íslandi býr til peysuna?“ spyr Bjarni. „Hvenær er peysan Íslensk og hvenær er hún það ekki?“

Nordic Store framleiðir um það bil 20.000 lopapeysur í Kína á ári fyrir verslanir sínar í Reykjavík og segir Bjarni að ef framleiða ætti slíkt magn á Íslandi þyrfti um það bil 200 til 250 starfsmenn í fulla vinnu. „Við höfum ekki svo marga prjónara.“

Samkvæmt Matvælastofnun hafa ein andmæli borist vegna umsóknarinnar um vernd afurðarheitisins, frá Nordic Store og rennur andmælarétturinn út 29. júní eða mánuði eftir að umsóknin barst.

Eftir að fresturinn rennur út verða andmælin síðan vegin og metin til móts við umsóknina um vernd heitisins og í kjölfarið verður tekin ákvörðun um það hvort að lopapeysur innfluttar frá Kína fái að heita íslenskar eða ekki.

mbl.is