Farnar að éta og hreyfa sig

Ljósmynd/Aðsend

Litla-Grá og Litla-Hvít fóru fljótlega að hreyfa sig og éta eftir komuna í laugina í Vestmannaeyjum í nótt. Þær fara síðar í griðasvæði í Klettsvík sem er hið fyrsta í heiminum sem er sérhannað fyrir mjaldra.

„Litla-Grá og Litla-Hvít komu í laugina eftir miðnætti. Þær hreyfðu sig vel og voru byrjaðar að éta mjög fljótlega eftir að þær komu í laugina. Þetta var langt og strangt ferðalag hjá mjöldrunum og gríðarleg vinna að baki hjá okkur sem að verkefninu komu. Við erum hæstánægð hversu vel þetta gekk,“ segir Sigurjón Ingi Sigurðsson, verkefnastjóri sérverkefnadeildar TVG-Zimsen, sem sá um flutn­ing­inn hér heima. 

Ferðalagið tók alls um 19 klukku­stund­ir og syst­urn­ar voru farn­ar að sýna þreytu­merki við kom­una til Vest­manna­eyja að sögn Sig­ur­jóns Inga en þota Cargolux lenti með þær á Keflavíkurflugvelli um klukkan 14 í gær.

Mjaldrasysturnar Litla-Hvít og Litla-Grá koma alla leið frá sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ, þar sem þær hafa skemmt almenningi síðan þær voru fangaðar við Rússland árið 2011. Þá voru þær einungis 2-3 ára gamlar en vera þeirra í Vestmannaeyjum gæti orðið löng, þar sem mjaldrar geta náð 40-50 ára aldri.

Cathy Williamson frá dýraverndunarsamtökunum Whale and Dolphin Conservation segir að nú sé mikilvægast að huga að vellíðan mjaldranna og stíga varlega til jarðar.

„Þeta er í fyrsta skipti sem þetta er gert – þetta eru fyrstu mjaldrarnir sem fá að búa í sjókví eftir að hafa verið í prísund í nokkur ár. Í augnablikinu viljum við fara varlega og við viljum tryggja að þeim líði vel á griðasvæðinu og viljum huga vel að því að þeir aðlagist hinu nýja umhverfi sem er mjög svo ólíkt hinu náttúrulega umhverfi þeirra,“ sagði Williamson. Umhverfið væri svo ólíkt því sem mjaldrarnir hefðu þurft að venjast á sædýrasafninu að mögulegt væri að þeir dveldu þar drýgstan hluta ævinnar.

Andy Bool, forstjóri Sea Life Trust, segir að uppbygging hinna nýju heimkynna mjaldranna, sjókvíarinnar í Klettsvík, sé gríðarlega mikilvægt skref í rétta átt, enda sé sjókvíin sú fyrsta af sínu tagi í heiminum fyrir mjaldra.

„Litla-Grá og Litla-Hvít eru fulltrúar allra þeirra mjaldra í heiminum sem hafa verið hnepptir í prísund og búa í kerjum á sædýrasöfnum. Með því að kynna þessa nýju leið til að annast dýrin í náttúrulegu umhverfi sínu vonumst við til þess að fleiri fylgi okkar fordæmi og geri slíkt hið sama,“ sagði Bool í samtali við Morgunblaðið.

Litla-Hvít og Litla-Grá hafa staðið í ströngu þjálfunarferli til þess að venjast lífsskilyrðum í Klettsvíkinni, sem eru töluvert frábrugðin aðstæðunum í sædýragarðinum. Þær þurfa að venjast hitastigi sjávarins og læra að halda niðri í sér andanum lengur áður en þær synda frjálsar í sjókvínni að sögn Bool. Því verða þær í sérstakri umönnunarlaug fyrstu vikurnar í Vestmannaeyjum.

Mjaldrarnir hafa ólíka persónuleika

Þjálfarar mjaldranna, sem fylgja þeim alla leið til Vestmannaeyja, hafa myndað náin tengsl við mjaldrana og gera mikinn greinarmun á persónugerð þeirra, að sögn Bool:

„Litla-Grá er mun sjálfsöruggari og tekur mun virkari þátt í nýjum athöfnum en Litla-Hvít, sem er hlédrægari og aðeins rólegri en Litla-Grá. En stundum eru þær ófyrirsjáanlegar, stundum hikar Litla-Grá við að gera eitthvað og Litla-Hvít ríður á vaðið og er allt í einu sjálfsöruggari.“

mbl.is