70% hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum

Jökulsárlón tók að myndast um 1935 og hefur síðan stækkað …
Jökulsárlón tók að myndast um 1935 og hefur síðan stækkað til muna eftir því sem Breiðamerkurjökull hopar. mbl.is/Ómar

70% landsmanna segjast hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Þá hafa 21% áhyggjur  í meðallagi, en 11% landsmanna segjast hafa litlar eða mjög litlar áhyggjur. Þetta kemur fram í könnun MMR sem tekin var 23.-29. maí en birtist í dag.

Loftslagsáhyggjur liggja þyngst á stuðningsfólki Samfylkingarinnar en 96% stuðningsmanna flokksins hafa miklar eða mjög miklar áhyggjur af loftslagsvánni, samanborið við 36% stuðningsmanna Miðflokks, sem minnstar áhyggjur hafa.

Allir aldurshópar láta sig loftslagsbreytingar varða, þótt áhyggjurnar séu mestar í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára þar sem 77% segjast hafa miklar áhyggjur. Minnstar eru þær í aldurshópnum 50-67 ára, 63%.

Þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins eilítið áhyggjufyllri en íbúar landsbyggðar, 72% samanborið við 61%.

mbl.is