Skráðum kynferðisafbrotum fjölgar

717 hegningarlagabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í maí og hefur …
717 hegningarlagabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í maí og hefur fjöldi skráðra hegningarlagabrota haldist tiltölulega stöðugur síðustu þrjá mánuði. mbl.is/Eggert

Fækkun varð á skráðum fíkniefnabrotum á höfuðborgarsvæðinu í maí en mikil fjölgun á skráðum kynferðisafbrotum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí 2019. 

717 hegningarlagabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í maí og hefur fjöldi skráðra hegningarlagabrota haldist tiltölulega stöðugur síðustu þrjá mánuði. Í skýrslunni kemur fram að á tímabilinu hafa litlar breytingar orðið á fjölda þeirra brota sem horft er sérstaklega til i skýrslunni.

Mikil fækkun varð á skráðum fíkniefnabrotum á höfuðborgarsvæðinu en ekki hafa verið skráð jafn fá fíkniefnabrot síðan apríl 2016.  Vert er að nefna að það sem af er ári hafa verið skráð um tíu prósent færri fíkniefnabrot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan. 

Fjölgun rekin til aðgerða í vændismálum

Mikil fjölgun var á skráðum kynferðisafbrotum í maí en það má einna helst rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum. Undanfarnar vikur hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið í sérstökum aðgerðum tengt mansali en vændi er ein af birtingarmyndum mansals. Þetta er einn af þeim þáttum í skipulagðri brotastarfsemi sem embættið leggur mikla áherslu á.

Heilt yfir fækkaði tilkynningum um þjófnað á milli mánaða en þó ber að nefna að tilkynningum um þjófnað á reiðhjólum fjölgaði nokkuð á milli mánaða.  Lögreglan vill því nota tækifærið og benda fólki á óskilamunasíðu lögreglunnar en þar setur lögreglan meðal annars inn myndir af reiðhjólum sem hafa komið í leitirnar.

mbl.is