Náðu samkomulagi um þjóðhagsráð

Breytt samkomulag um þjóðhagsráð var undirritað í dag. Upphaflega neitaði …
Breytt samkomulag um þjóðhagsráð var undirritað í dag. Upphaflega neitaði verkalýðshreyfingin að taka sæti í ráðinu vegna deilna um hlutverk þess. Ljósmynd/Stjórnarráð Íslands

Samkomulag hefur náðst um að þjóðhagsráð taki til starfa, en í breyttri mynd en upphaflega var gert ráð fyrir, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Mun starf ráðsins ná til þátta sem lengi var deilt um og varð til þess að verkalýðshreyfingin neitaði að taka sæti í ráðsinu.

Það var árið 2015 sem gert var rammasamkomulag um vinnumarkaðinn (SALEK) var gert milli aðila vinnumarkaðarins og ríki. Liður í samkomulaginu var að þjóðhagsráð yrði stofnað til þess að tryggja stöðugleika.

Boðað var til stofnfundar ráðsins í júní 2016, en þá var talsverður ágreiningur um tilgang, verkefni og markmið ráðsins. Neituðu fulltrúar Alþýðusambands Íslands og BSRB að mæta þar sem störf ráðsins áttu ekki að taka til félagslegs stöðugleika. Þessu voru stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins ósammála.

Urðu við kröfu verkalýðshreyfingarinnar

Í dag var hins vegar birt frétt á vef stjórnarráðsins sem segir frá því að undirritað samkomulag um hlutverk og umgjörð Þjóðhagsráðs. Í endurskoðuðu samkomulagi um hlutverk og umgjörð ráðsins segir að ráðinu er gert að fjalla um bæði efnahagslega- og félagslega þætti.

„Ríkisstjórnin hefur samþykkt að Þjóðhagsráð ræði félagslegan stöðugleika og reyndar einnig áhrif loftlagsbreytinga á efnahag og samfélag. Ég vænti mikils af störfum Þjóðhagsráðs í framtíðinni til að efla stjórnun efnahagsmála og bæta samskipti á milli hins opinbera, Seðlabankans og heildarsamtaka á vinnumarkaði,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markmiðið stöðugleiki

„Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál,“ segir í samkomulaginu.

Er ráðinu einnig falið að „fjalla um stöðu í efnahags- og félagsmálum og ræða samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni.“

Þeir sem undirrituðu samkomulagið í dag voru forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Seðlabanki Íslands.

mbl.is