„Til hamingju Ísland“

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.
Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Þetta er fyrst og fremst mikill heiður fyrir almenningsþjóðgarðinn og Ísland allt,“ segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, þegar blaðamaður náði tali af honum á heimsþingi UNESCO sem fram fer í Bakú í Aserbaídjsan. Þá hafði þingið nýsamþykkt að bæta Vatnajökulsþjóðgarði á lista sinn yfir heimsminjar og þykir það stærsta viðurkenning sem náttúrusvæði getur hlotnast.

Magnús segir að hér sé fólgin viðurkenning á þeim einstöku náttúruöflum sem finna megi á svæðinu, jöklunum, landformunum, jökulánum og eldfjöllunum.

Heimsminjastofnunin er kröfuhörð og ekki hvaða svæði sem er sem rata inn á listann. Uppfylla þurfi strangar kröfur um rekstur garðsins og á þeim er ekki slakað þótt svæðið sé komið með viðurkenninguna. „Það má líta á þetta eins og gæðavottun,“ segir Magnús. Fylgst sé með hvort þjóðgarðurinn standi sig í stykkinu, en dæmi séu um að svæði sem komist hafa á listann detti af honum sé ekki staðið við skuldbindingar.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið tekinn á heimsminjaskrá.
Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið tekinn á heimsminjaskrá. mbl.is/Sigurður Bogi

Í tilfelli Vatnajökuls er reksturinn í góðum málum. Í umsögn Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN), sem mæltu með því að þjóðgarðinum yrði bætt á list­ann, var þeim til­mæl­um beint til stjórn­valda að lokið yrði sem fyrst við end­ur­skoðun stjórn­un­ar- og verndaráætl­un­ar garðsins, og mannauður þjóðgarðsins verði efld­ur, bæði með til­liti til heils­árs- og tíma­bund­ins starfs­fólks, ekki síst við Jök­uls­ár­lón þar sem einnig þurfi að bæta aðstöðu ferðamanna. Þá þurfi að efla aðgerðir sem hindra ut­an­vega­akst­ur.

Magnús segir að vinna við þessa þætti sé í gangi og nefnir að atvinnustefna garðsins, sem tekur á samskiptum garðsins við atvinnurekendur á svæðinu, hafi nýlega verið samþykkt. Aðspurður segir hann ekki ólíklegt að aukið utanumhald um garðinn, ekki síst meiri mönnun, kalli á frekara fjármagn.

En hvaða tækifæri eru fólgin í vottuninni? Mun áhugi á garðinum aukast?

„Ég held tvímælalaust að þetta muni auka áhugann á garðinum, innanlands og utan. Aðalbreytingin verður sennilega sú að við fáum kröfuharðari ferðamenn. Fólk sem gerir meiri kröfur til upplýsingar og fræðslu, og dvelur þá vonandi lengur í garðinum,“ segir Magnús. Ferðamenn sem ekki ætli sér að stoppa við Jökulsárlón í tvo tíma og fara svo aftur í bæinn.

Hann segir stóran hóp ferðamanna gera út á að heimsækja heimsminjastaði og slíkum megi eiga von á. „En þetta er fyrst og fremst viðurkenning.“

Í framkvæmdastjórn heimsminjastofnunar UNESCO sitja 58 ríki og taka fulltrúar þeirra endanlega ákvörðun um viðbætur á listann. Um 40 svæðum var á þinginu bætt á heimsminjaskrána, en þar af falla flest undir menningarverðmæti. Innan við tíu svæðum var bætt á nátturuminjaskrána, þá sem Vatnajökulsþjóðgarður tilheyrir nú.

Þjóðgarðurinn er sá þriðji íslenskra svæða sem bætist á listann, en fyrir eru Surtsey sem tekin var á náttúruminjaskrána árið 2008, og Þingvellir sem riðu á vaðið árið 2004 en þeir eru á listanum vegna sögulegs verðmætis svæðisins. 

Þingvellir eru á heimsminjaskrá vegna sögulegra verðmæta sem þar leynast. …
Þingvellir eru á heimsminjaskrá vegna sögulegra verðmæta sem þar leynast. Ekki þykir loku fyrir það skotið að þjóðgarðinum verði síðar bætt á lista heimsminjaskrárinnar yfir náttúruminjar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert