Þarf „vinnu, þjálfun og fjármuni“

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Við þurfum hér á Íslandi að vinna betur í því hvernig við ákveðum bestu hagsmuni barns. Í einhverjum tilfellum geta það verið hagsmunir barns að það sé sent aftur til lands, þar sem það hefur stöðu flóttamanns og í einhverjum tilfellum ekki. Við þurfum að vera vandvirk og meta hvert tilfelli fyrir sig,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Það að til hafi staðið að senda afgönsk flóttabörn úr landi þar til fyrir skömmu segir Bergsteinn til marks um að Ísland sé skammt á veg komið varðandi innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í framkvæmd laganna.

„Okkur finnst það vera birtingarmynd þess að kerfin okkar hafi ekki farið í nægjanlega vinnu til að innleiða Barnasáttmálann í sitt starf, þrátt fyrir að vísað sé í hann í útlendingalögum og öðrum lögum um börn á íslandi. Einnig er Barnasáttmálinn sjálfur lögfestur á Íslandi,“ segir hann.

Bergsteinn telur að þverpólitíska þingmannanefndin, sem skipuð var til þess að koma í kring umbótum á umgjörð flóttamannamála hér á landi, þurfi að skoða nákvæmlega hvernig framkvæmd laganna gætir hagsmuna barna. 

„Þetta snýst í raun um að við þurfum að framkvæma þessi lög betur því það eru ákvæði í útlendingalögum sem gætu tryggt betra hagsmunamat fyrir börn en það þarf bara að framfylgja því og þá þarf vinnu við það, þjálfun og fjármuni,“ segir Bergsteinn.

Verður að vera hægt að tryggja aðstæður barna þegar til Grikklands er komið

UNICEF hefur mælt gegn því að börn séu send til Grikklands en Bergsteinn segir það velta á aðstæðum barnsins. Þetta er aðeins gert þegar börn hafa þegar fengið þar vernd.

„Ef að hægt er að tryggja það að börnin sem við sendum aftur muni fá þá þjónustu sem þau eiga rétt á, það er að segja umönnun, vernd, heilsugæslu og menntun, þá forsendur til að senda barnið aftur betri, nema aðstæður séu þannig að það valdi því áfalli eða erfiðleikum. Ef ekki, sé ég ekki að verið sé að framfylgja barnasáttmálanum og ákvæðum hans um að tryggja beri hagsmuni barnsins,“ segir Bergsteinn. 

Bergsteinn kveðst fagna því að félags- og barnamálaráðherra hafi gefið til kynna að unnið verði að bættri umgjörð í þessum málum, meðal annars með því að vinna úr niðurstöðum verkefnis UNICEF, Heima.

„Í verkefninu var rætt við yfir þrjátíu börn um upplifun þeirra af komunni til Íslands. Eitt af því sem kom fram er skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Börn sem sækja um alþjóðlega vernd hafa ekki sama aðgengi að heilsugæslu á Íslandi og önnur börn. Þá reyndust börnin öll meðvituð um afleiðingar þess að fá annaðhvort vernd eða synjun, og lýstu flest áhyggjum og vanlíðan yfir óvissunni sem fylgir umsóknarferlinu og mögulegum afleiðingum fyrir framtíð þeirra,“ segir um verkefnið á heimasíðu UNICEF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert