„Við munum ekkert hvika“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir samþykkt tillögu Íslands á mannréttindabrotum …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir samþykkt tillögu Íslands á mannréttindabrotum í Filippseyjum staðfesti að rdd Íslands skipti máli. UN Photo/Evan Schneider

„Þetta er áþreifanleg sönnun þess að okkar rödd og okkar verk skipta máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hafi í dag samþykkt tillögu Íslands um rannsókn á mannréttindabrotum í Filippseyjum.

Tillagan var samþykkt með átján atkvæðum gegn fjórtán, en fimmtán sátu hjá.

„Við erum svo lánsöm að búa við mannréttindi á Íslandi sem okkur finnst fullkomlega sjálfsögð, þau eru það ekki og eiga undir högg að sækja í heiminum. Það er okkar skylda að leggja okkar á vogaskálarnar til þess að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum,“ segir Guðlaugur sem kveðst ánægður með niðurstöðuna.

Hann segir það hafa verið sérstök áhersla Íslands að þau ríki sem hafa verið kjörin til setu í mannréttindaráðinu fylgi ákvæðum mannréttindasáttmálans og sýni þannig gott fordæmi. „Þess vegna höfum við meðal annars tekið fyrir málefni Filippseyja og sömuleiðis Sádí Arabíu og við munum halda því áfram.“

Mannréttindasamtök ánægð með Ísland

Inntur álits á ásökunum Filippseyja á fundinum um að Ísland vanvirði ráðið og yfirlýsingu utanríkisráðherra landsins, Teodoro Locsin, um að samþykkt tillögunar muni hafa „alvarlegar afleiðingar,“ segir Guðlaugur það ekki hafa áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda.

„Í mínum huga er málið mjög skýrt. Mannréttindaráðið er ekki til þess að koma saman og fá sér kaffi, þetta er til þess að beita ráðinu í þágu mannréttinda og það er það sem við gerum. Þó að við fáum einhverjar hótanir, þá er það bara þannig. Við munum ekkert hvika frá þeirri stefnu,“ segir hann og bætir við að „þeir sem eru ekki með nógu góða samvisku í því, þeir eru með allrahanda yfirlýsingar og hótanir. Það hefur ekki áhrif á okkur.“

„Viðbrögðin sem við höfum fengið vegna okkar framgöngu í ráðinu hafa verið miklu sterkari en ég átti von á. […] Mannréttindasamtök hafa verið mjög ánægð með framgöngu Íslands og hvatt aðrar þjóðir til þess að fylgja fordæmi okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina