Rekstrarhagnaður aðeins 1,4% á landsbyggðinni

Afkoman hefur farið lækkandi bæði í Reykjavík og úti á …
Afkoman hefur farið lækkandi bæði í Reykjavík og úti á landi frá 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Ný könnun á afkomu hótelfyrirtækja 2018 sýnir verulegan mun á afkomu fyrirtækja í Reykjavík og á landsbyggðinni, en meðalrekstrarhagnaður hótelfyrirtækja á landsbyggðinni var aðeins 1,4% af veltu og hefur helmingast frá síðasta ári. Afkoma hefur farið lækkandi bæði í Reykjavík og úti á landi frá 2016.

Könnunin var unnin af KPMG fyrir Ferðamálastofu og í tilkynningu segir að beiðni um upplýsingar hafi einnig verið send til bílaleiga, hópferðafyrirtækja, ferðaskrifstofa og afþreyingarfyrirtækja og að niðurstaðna úr þeim könnunum sé að vænta síðar á árinu, auk umfjöllunar um ferðaþjónustuna í heild.

Samanburður við árið 2017 leiðir í ljós að rekstrarhagnaður sem hlutfall af tekjum hótelfyrirtækja var næstum óbreyttur í Reykjavík en lækkaði á Suðurlandi á Suðurnesjum. Á Vesturlandi dró úr rekstrartapi en á Norðurlandi urðu ekki miklar breytingar á rekstrartapi, en Ferðamálastofa bendir á að hafa þurfi í huga misgóða þátttöku eftir landshlutum við túlkun niðurstaðna.

Laun eru að jafnaði hærra hlutfall af tekjum hjá hótelum á landsbyggðinni en í Reykjavík, eða 44,8% á landsbyggðinni en 36,3% í Reykjavík. 

Skýrsla KPMG í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina