Öll sextán smit líklega frá sama stað

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd/mbl.is

Ekkert bendir til annars en að öll sextán börn sem hafa greinst með E. coli sýkingu hafi smitast á sama stað. Þar á meðal þau fjögur sem greindust í gær. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Fjögur börn á aldrinum 14 mánaða til 4 ára greindust með E.coli sýkingu í gær eftir að niðurstöður úr sýnum frá þeim lágu fyrir. Í tilkynningu embættis landlæknis kom fram að faraldsfræðilegar upplýsingar hjá þessum börnum lægju ekki fyrir.

Smitin frá Efstadal II miðað við fyrirliggjandi upplýsingar

Þórólfur segir hins vegar ekkert benda til þess að upptök smitsins séu annar staðar frá. „Eins og ég segi þá eigum við eftir að fá upplýsingar um það en þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi benda ekki til neins annars,“ segir hann.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að mun fleiri börn séu með E. coli sýkingu en þessi sextán sem hafa þegar greinst segist hann ekki geta sagt til um það.

„Við höfum alltaf verið að fá ný tilfelli á hverjum degi þannig við tökum því bara eins og það kemur. Það er ómögulegt að segja,“ bætir hann við.

mbl.is