Tíföldun á sárasóttartilfellum

Eitt sárasóttartilfelli greindist á Íslandi árið 2007, fimm árið 2010 …
Eitt sárasóttartilfelli greindist á Íslandi árið 2007, fimm árið 2010 og 52 árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingar eiga Evrópumet í sárasótt, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópu (EDC). Greind sárasóttartilfelli á Íslandi mældust í fyrra 15,4 á hverja 100.000 íbúa, en meðaltal Evrópusambands- og EES-ríkja er 7,1.

Hlutfall tilkynntra tilfella hefur tífaldast á Íslandi á sjö ára tímabili frá árinu 2010 til 2017, úr 5 tilfellum í 52 og slær Ísland þar öllum þjóðum við í aukningu. Rétt er þó að taka fram að hér er um tilkynnt tilfelli að ræða, og kann aukið eftirlit með sárasótt að skýra aukninguna að einhverju leyti.

Meðal annarra ástæðna sem upp eru gefnar eru aukin áhættusöm hegðun í kynlífi, minni notkun smokka og aukin skyndikynni sem meðal annars eru skýrð með stefnumótaforritum á borð við Tinder. 

Staðfest tilfelli sárasóttar eru mun algengari meðal karla en kvenna. Á hverja 100.000 íbúa í Evrópu voru árið 2017 staðfest 12,1 tilfelli sárasóttar hjá körlum en aðeins 1,4 hjá konum. Á Íslandi er hlutfallið 25 hjá körlum og 6 hjá konum.

Sárasótt smitast helst í gegnum slímhúð kynfæra við samfarir og telst því til kynsjúkdóma þótt mögulegt sé að hann smitist í gegnum aðra slímhúð. Hann er talinn auðlæknandi en getur valdið tauga- og hjartasjúkdómum sé ekkert að gert.

mbl.is