Vilja fyrst og fremst nýtingarskyldu

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. mbl.is

„Við höfum aðallega viljað að jarðeigendur hafi einhverjar skyldur þannig að jarðirnar séu ekki keyptar og séu síðan bara eins og stórar sumarhúsalóðir eða eitthvað slíkt. Við höfum þannig ekki miklar áhyggjur af því hvort um er að ræða íslenska eða erlenda ríkisborgara heldur höfum við áhyggjur af byggðunum og að jarðir lendi út fyrir landbúnaðinn og detti alveg úr notkun. Hvort sem það er af völdum erlendra kaupenda eða innlendra.“

Þetta segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, í samtali við mbl.is vegna umræðunnar um jarðakaup erlendra ríkisborgara hér á landi og hvort og þá hvaða skilyrði sé rétt að setja og hægt að setja í þeim efnum. Þannig snúi áhyggjur Bændasamtakanna í raun ekki að búsetu á jörðunum heldur fyrst og fremst að nýtingu þeirra. Vísar Sigurður til þess að í bæði Danmörku og Noregi séu reglur um ákveðna nýtingarskyldu. Kaupum á bújörð fylgi þannig ákveðnar skyldur gagnvart henni.

Þar vísar Sigurður til þess að reglur Evrópusambandsins um frjálst flæði fjármagns gilda í Danmörku og að sama skapi í Noregi sem eins og Ísland á aðild að EES-samningnum. „Þetta er ekki að finna í íslenskum lögum og við viljum alla vega að það sé skoðað mjög gaumgæfilega ef til stendur að gera breytingar á þessu. Fyrst og fremst þarf þá að horfa til þess að jarðir detti ekki úr nýtingu án þess að nokkur hafi möguleika á að gera neitt.“

Búsetuskyldu sé einnig fyrir að fara í Noregi og Danmörku á landbúnaðarlandi en hún gildi hins vegar jafnt um heimamenn og erlenda ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). „Það er meginafstaða okkar að það séu einhverjar girðingar sem geti komið í veg fyrir að jarðir séu teknir út úr landbúnaðarnotkun án þess að nokkur fái rönd við reist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert