Vilja aðgerðir en lítið hefur gerst

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Fjölmargir forystumenn í íslenskum stjórnmálum hafa lýst þeirri skoðun sinni opinberlega á undanförnum árum að nauðsynlegt sé að taka umfangsmikil jarðakaup hér á landi til skoðunar með það fyrir augum að setja þeim ákveðnar skorður. Þá ekki hvað síst forystumenn núverandi ríkisstjórnarflokka. Þrátt fyrir það verður ekki séð að mikið hafi verið gert í þeim efnum.

Málið komst í hámæli í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem tók við völdum árið 2009 í kjölfar falls viðskiptabankanna haustið áður. Tilefnið var einkum fyrirhuguð kaup kínverska kaupsýslumannsins Huangs Nubo á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, tók málið föstum tökum og taldi ástæðu til þess að hindra kaupin. Ekki síst í ljósi þess að um væri að ræða mjög víðfemt landsvæði.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það finnst mér ekki“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sem þá var í stjórnarandstöðu, setti stórt spurningamerki við slík jarðakaup á Facebook-síðu sinni í september 2011 þar sem hann sagði meðal annars: „Það er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að greiða fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi. Vilji menn reisa hótel og fara í ferðaþjónustu ber að fagna því. En er það sjálfsagt og eðlilegt að menn geti keypt stórar jarðir og jafnvel hundruð ferkílómetra lands? Það finnst mér ekki.“

Svo fór að lokum að ekkert varð af kaupum Huangs á Grímstöðum á Fjöllum en þar sem hann var ekki búsettur innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) þurfti hann leyfi ráðherra til kaupanna lögum samkvæmt. Síðar, árið 2016, keypti breski kaupsýslumaðurinn Jim Ratcliffe Grímsstaði en ólíkt Huang er hann búsettur innan EES.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ögmundur setti í kjölfarið vinnu í gang í innanríkisráðuneytinu sem skilaði sér í setningu reglugerðar skömmu fyrir þingkosningar 2013, þess efnis að erlendir ríkisborgarar með lögheimili innan EES væri óheimilt að eignast fasteignir á Íslandi nema þeir hefðu fasta búsetu eða stunduðu atvinnu- eða þjónustustarfsemi hér á landi á grundvelli EES-samningsins.

ESA lýsti efasemdum sínum

Eftir þingkosningarnar felldi Hanna Birna Kristjánsdóttir, eftirmaður Ögmundar í innanríkisráðuneytinu, reglugerðina úr gildi í kjölfar efasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að reglugerðin samrýmdist EES-samningnum. Var óskað eftir rökstuðningi af hálfu ESA en svo virðist sem honum hafi aldrei verið komið á framfæri við stofnunina. Tilkynnt var af innanríkisráðuneytinu að til stæði að hefja endurskoðun laga um málaflokkinn í samvinnu við önnur ráðuneyti.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Síðla sumars 2013 sagði Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Ísland og sérfræðingur í Evrópurétti, að íslensk stjórnvöld gætu tengt eignarhald á fasteignum við tiltekna nýt­ingu, svo sem heimili eða atvinnu, innan ramma EES-samningsins, en Stefán hafði ásamt Jens Hartig Danielsen, prófessor við lagadeild Háskólans í Árósum, unnið álitsgerð fyrir innanríkisráðuneytið um málið sem reglugerð Ögmundar var meðal annars byggð á.

Svo virðist sem sú vinna sem til stóð að fara í varðandi þessi mál í innanríkisráðuneytinu að frumkvæði Hönnu Birnu hafi ekki skilað miklu. Settur var á laggirnar starfshópur sem skilaði tillögum sumarið 2014 þar sem lagt var til að einstaklingar utan EES gætu keypt og leigt húsnæði hér á landi án takmarkana, en fest yrði í hins vegar í lög takmarkanir sömu einstaklinga að kaupa landsvæði. Hver einstaklingur eða lögaðili gæti almennt aðeins átt eina jörð á bilinu 5-10 hektara að stærð.

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Skömmu fyrir stjórnarskipti í janúar 2017 skipaði Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, starfshóp til þess að kortleggja hvaða leiðir væru færar í þessum efnum innan EES-samningsins og með hliðsjón af reynslunni til dæmis í Noregi og Danmörku.

Starfshópurinn átti að skila tillögum sumarið sama ár en af því varð hins vegar ekki fyrr en í ágúst á síðasta ári, rúmu ári síðar. Í framhaldinu ákvað Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að skipa annan starfshóp um endurskoðun laga og reglna um eignarhald á landi og fasteignum. Niðurstaða þeirrar vinnu mun ekki liggja fyrir.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson tjáði sig aftur um málið í lok ágúst 2017. Þá sem forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Þar sagði hann meðal annars: „Það eru mörg hundruð milljónir manna sem geta komið til Íslands og sóst eftir því að kaupa fasteignir, jarðir og lönd án þess að það þurfi sérstakar undanþágur á grundvelli reglna EES-samstarfsins.“ Benti Bjarni ennfremur á að slík jarðarkaup hefðu átt sér stað í auknum mæli á undanförnum árum. Miklir hagsmunir væru í húfi.

Marka þurfi skýrari stefnu

Skömmu áður hafði Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sem þá var í stjórnandstöðu en er núverandi ráðherra menntamála, kallað eftir því að lög og reglur um jarðakaup hér á landi væru teknar til skoðunar. Málið hafði þá komist aftur í hámæli meðal annars vegna áhuga erlendra fjárfesta á jörðinni Neðri-Dalur í Biskupstungum. Benti Lilja ennfremur á að niðurstöðum starfshópa sem um málið hefðu fjallað hefði ekki verið hrint í framkvæmd. Marka þyrfti skýrari stefnu í málinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tjáði sig einnig um málaflokkinn um þetta leyti og sagði á Facebook-síðu sinni að á síðustu árum hefðu efnaðir einstaklingar eignast fjölmargar jarðir á Íslandi. Tilgangurinn virtist vera sá að komast yfir laxveiðiréttindi. „Þar bera menn stórfé á bændur til að eignast heilu dalina, firði og vatnsréttarsvæði,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Ég held að við viljum ekki þessa þróun - þess vegna þarf að spyrna við fótum.“

Snýst um fullveldi Íslands

Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði í september 2017 að rétt væri að setja fastmótaðri reglur en í gildi væru um jarðakaup útlendinga hér á landi. Til stæði að frumvarp þess efnis yrði lagt fram. Sú vinna virðist hins vegar ekki hafa skilað niðurstöðu. Katrín Jakobsdóttir sagði í júlí á síðasta ári í samtali við Ríkisútvarpið að setja þyrfti frekari takmarkanir á jarðakaup.

„Þetta er auðvitað stórmál og þetta snýst auðvitað um það hvernig við lítum á landið. Landið sem auðlind og landið sem hluta af okkar fullveldi,“ sagði forsætisráðherra. Hún sagði aftur nú í vikunni að vilji væri til þess að taka á málinu og Sigurður Ingi sagði í fyrradag að hann vonaði að frumvarp þess efnis liti dagsins ljós í haust. Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson vegna málsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »