8000 lítrar af olíu láku í jarðveginn

Olíu dælt úr ónýtum tönkunum. 22.000 lítrum var bjargað.
Olíu dælt úr ónýtum tönkunum. 22.000 lítrum var bjargað. Ljósmynd/Aðsend

Slökkvilið og öryggisfulltrúar á vegum Olíudreifingar ehf. hafa lokið við að dæla olíu úr götóttum olíutanki olíuflutningabíls á Öxnadalsheiði sem valt um hádegisbil í dag. Gróflega áætlað láku alls um 8.000 lítrar af skipagasolíu í grýttan jarðveginn á slysstað, sem var skammt vestan Grjótár.

Eitthvað af olíu lak í læk sem var við slysstað, sem virðist hafa verið Heiðará sem rennur vestur Öxnadalsheiði og fellur í Norðurá. Sem betur fer að sögn varðstjóra Slökkviliðs Akureyrar, Vigfúsar Bjarkasonar, tókst að stífla lækinn. Það kom í veg fyrir að mikið af olíu kæmist í hann.

Með hjálp bænda og verktaka á svæðinu tókst að gera …
Með hjálp bænda og verktaka á svæðinu tókst að gera stíflu utan um olíuna, svo að ekki læki hún út í lækinn við veginn. Ljósmynd/Aðsend

„Aðgerðirnar gengu mjög vel. Mjög fljótt kom mikill mannskapur á vettvang og þetta gekk í raun eins vel og hægt var í þessum aðstæðum,“ segir Vigfús í samtali við mbl.is. 

Stýrihúsið illa farið

Þegar Vigfús kom á vettvang var stýrihúsið illa farið, að hans sögn. Bíllinn lá endilangur á hlið utan vegarins. Ekki þurfti að beita klippum til að koma ökumanni út úr stýrihúsinu en hann komst þó ekki þaðan af sjálfsdáðum. Hann var svo fluttur til Akureyrar, þar sem hann liggur nú á sjúkrahúsi.

Stýrihúsið var illa farið.
Stýrihúsið var illa farið. Ljósmynd/Aðsend

Alls voru 30.000 lítrar af skipagasolíu í tönkunum, sem er díselolía ögn minna hreinsaðri en sú sem sett er á bíla. Það þýðir að tekist hafi að dæla um 22.000 lítrum af olíu úr rifnum tönkunum á aðeins fáum klukkustundum. Hluti olíunnar var í tengivagni sem bíllinn hafði í eftirdragi.

Að sögn Vigfúsar ætti að vera opnað fyrir umferð fyrir klukkan fimm. Mikil umferðarteppa er um göngin í Ólafsfirði og Siglufirði, sem eru einbreið og gera ekki ráð fyrir allri þeirri umferð sem annars fer um Öxnadalsheiði. Þar fara meðal annars stórir vörubílar sem illa komast um nefnd göng.

Aðgerðirnar gengu vel, segir varðstjóri slökkviliðsins.
Aðgerðirnar gengu vel, segir varðstjóri slökkviliðsins. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir olíuna sem lak í jarðveginn ekki hafa verið mjög sjáanlega heldur hafa að mestu sigið ofan í hann. Fólk á vegum Heilbrigðiseftirlitsins er nú á svæðinu að taka sýni og meta hvort taka skipta þurfi um jarðveg vegna lekans. Vigfús segir að komið hafi verið í veg fyrir mesta skaðann með því að stífla lækinn, sem var hægt með hjólaskóflu verktaka sem voru í grenndinni fyrir tilviljun.

Sérfræðikunnáttu þarf til að dæla olíu úr tönkunum í þessum …
Sérfræðikunnáttu þarf til að dæla olíu úr tönkunum í þessum aðstæðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is