Stríðsglæpamenn hreiðri um sig í boði VG

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, segir óboðlegt að Bandaríkjaher snúi aftur hingað til lands í boði Vinstri grænna. Þetta kemur fram í grein sem hann birtir á vefsíðu sinni í gær.

„Herinn sem hvarf af landi brott árið 2006 er að snúa til baka“ skrifar Ögmundur og vísar vafalaust í fréttaflutning af stórfelldum uppbyggingaráformum hersins á Keflavíkurflugvelli, sem þó eru ekki sögð til marks um varanlega endurkomu hans.

Segir Ögmundur að ef ekki verði gripið í taumana þá setjist herinn hér að, og að það verði í boði Vinstrihreyfingarinnar. Þá þykir honum flokkurinn ekki hafa staðið sig í stykkinu sem andstæðingur Atlantshafsbandalagsins.

Máttlítil mótstaða VG

Vinstristjórnin 2009-13, sem Ögmundur sat sjálfur í, hafi umborið „loftrýmiseftirlit“ Atlantshafsbandalagsins, og þá hafi VG ekki kosið gegn þjóðaröryggisstefnu, sem innleidd var með þingsályktunartillögu árið 2016, en þar var aðild að Atlantshafsbandalaginu niðurnjörvuð sem ein af grunnstöðum þjóðaröryggis. Ögmundur var sjálfur fjarverandi við atkvæðagreiðsluna en aðrir þingmenn VG sátu hjá. Þjóðaröryggisstefnan var samþykkt samhljóða með 46 atkvæðum.

Ögmundur segir ekkert réttlæta þá hernaðaruppbyggingu sem nú stendur fyrir dyrum í landinu. Þjóðaröryggisstefna leyfi ekki að stríðsglæpamönnum sé heimilað að hreiðra um sig í landinu að nýju, en þar á hann við Bandaríkjaher. 

Stutt er síðan undirforingi bandaríska sjóhersins, Edward Gallagher, var sýknaður af stríðsglæpum eftir að undirmaður hans tók skyndilega og fyrirvaralaust á sig sök, en sá naut heppilega friðhelgi fyr­ir dóm­stóln­um, eins og mörg önn­ur vitni í þessu máli, og gat því verið viss um að hann ætti ekki yfir höfði sér refs­ingu, sama hvað hann segði dómn­um.

Ögmundur klykkir út með að hann hafi strax árið 2015 farið að óttast það að bjóða ætti Bandaríkjaher aftur velkominn, sjálfan friðarspillinn og höfuðskaðvaldinn á heimsvísu, eins og hann kallaði herinn af því tilefni.

mbl.is