Óskabörn þjóðarinnar á heimsleikum

Dave Castro, stjórnandi heimsleikanna í crossfit, á milli Katrínar Tönju …
Dave Castro, stjórnandi heimsleikanna í crossfit, á milli Katrínar Tönju Davíðsdóttur, tvöfalds sigurvegara heimsleikanna, og Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur, tvöföldum bronsverðlaunahafa. Ljósmynd/Facebook

Sex Íslendingar keppna í opnum flokkum á heimsleikunum í crossfit sem fara fram dagana 1. til 4. ágúst í Madison í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum. Þá keppa Íslendingar einnig í unglingaflokki og aldursflokknum 35 ára og eldri. 

Björgvin Karl Guðmundsson er eini íslenski karlmaðurinn sem keppir í opnum flokki. Hann er þó ekki eini íslenski karlinn sem tekur þátt, en þeir Stefán Helgi Einarsson og Sigurður Þrastarson keppa í aldursflokknum 35-39 ára og Brynjar Ari Magnússon keppir annað árið í röð í aldursflokknum 14 til 15 ára. Þá tekur Hilmar Harðarson þátt í flokki 60 ára og eldri.

Íslensku crossfitkonurnar hafa heldur betur slegið í gegn síðasta áratuginn í heimi íþróttarinnar. Ísland á fimm íslenskar „dætur“ á leikunum í ár, þeirra á meðal eru tvær tvöfaldir heimsmeistarar. 

Björgvin Karl

Leikarnir í ár eru sjöttu leikar Björgvins Karls, en hann er 26 ára gamall og keppti fyrst á leikunum árið 2014. Besta árangri sínum náði Björgvin Karl árið 2015 þegar hann endaði í 3. sæti. Síðustu tvö ár hefur hann verið í 5. sæti. 

Katrín Tanja

Katrín Tanja Davíðsdóttir keppir á sínum sjöundu leikum í ár. Hún er 26 ára gömul og keppti fyrst á leikunum árið 2012. Hún náði sínum besta árangri á leikunum árin 2015 og 2016, en hún endaði í 1. sæti bæði árin. Hún endaði í 3. sæti í á síðasta ári. 

Ragnheiður Sara

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppir á sínum fimmtu leikum í ár, en hún er 26 ára gömul og keppti fyrst árið 2015. Það ár náði hún sínum besta árangri á leikunum þegar hún endaði í 3. sæti. Árið eftir tók hún einnig 3. sætið, en á síðasta ári endaði hún í 37. sæti, en hún dró sig þá úr keppni sökum rifbeinsbrots. 

Annie Mist

Annie Mist Þórisdóttir er með reyndari crossfit keppendum Íslands, 29 ára að aldri. Hún keppir nú á leikunum í tíunda sinn, en hún tók fyrst þátt árið 2009. Hún varð tvöfaldur heimsmeistari, árin 2011 og 2012, en sökum meiðsla keppti hún ekki árið 2013. Á síðasta ári endaði hún í 5. sæti, en hennar lakasti árangur var árið 2015 þegar hún þurfti að hætta keppni vegna hitaslags. 

Þuríður Erla

Þuríður Erla Helgadóttir keppir á sínum fimmtu leikum í ár, en hún tók síðast þátt árið 2017. Það ár náði hún sínum besta árangri og endaði hún í 18. sæti. Þuríður keppti fyrst árið 2012 þegar hún endaði í 35. sæti. Hún er 27 ára gömul. 

Oddrún Eik

Oddrún Eik Gylfadóttir keppir í annað sinn á leikunum í opnum kvennaflokki, en hún tók einnig þátt í liðakeppni árið 2016. Hún endaði í 26. sæti í fyrra og er hún elsti íslenski keppandinn í opnum flokki, 30 ára að aldri.mbl.is