Vona að slökkvistarfi ljúki í kvöld

Slökkvilið hefur glímt við eldinn frá því um þrjú í …
Slökkvilið hefur glímt við eldinn frá því um þrjú í nótt. mbl.is/Hari

Enn eru smáglæður í iðnaðarhúsnæði á Fornuströnd í Hafnarfirði og mikill hiti í rústum hússins. Slökkvilið hefur unnið á vettvangi frá því árla morguns er eldur kom upp, og enn glíma 15 slökkviliðsmenn við það sem eftir lifir hans.

Í samtali við mbl.is segir varðstjóri að eldurinn hafi minnkað til muna. Vakt stendur til hálfátta og vonast hann til að afhenda megi lögreglu vettvanginn þá, þótt ekki sé útséð um það enn.

Eldsupptök eru ókunn, en greint var frá því á mbl.is í dag að þau væru í það minnsta ekki hjá IP-dreifingu, öðru tveggja fyrirtækjanna hvers húsnæði er nú rústir einar. Hitt fyrirtækið er matvinnslufyrirtækið IC Core en starfsemi þess var mun umfangsmeiri.

mbl.is/Hallur Már

Haraldur Reynir Jónsson er eigandi alls iðnaðarhúsnæðisins sem brann og var í útleigu ýmissa fyrirtækja. Hann segir í samtali við mbl.is að tjónið hlaupi sennilega á hundruðum milljóna. Dýr mat­væla­vinnslu­búnaður var í þeim hluta hússins sem brann til kaldra kola og reykskemmdir aðliggjandi húsa setji alla starfsemi úr skorðum.

Áður hefur verið greint frá því að nýr leigjandi, járnaverksmiðjan Járnborg, hafi ætlað að taka við leigu á norðausturhluta hússins á morgun, 1. ágúst, en ljóst er að ekki verður af því í bili. Sá hluti hússins er heill, en illa leikinn af vatni, reyk og sóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka