Vinna úr gögnum um eldinn

mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við fórum á staðinn í gær og ræddum við vitni. Við höfum verið að afla upplýsinga úr eftirlitsmyndavélum í grenndinni og sjá hvernig þetta byrjaði allt saman.“

Þetta segir Helgi Gunnarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna á rannsókn lögreglunnar á eldsvoðanum sem kom upp í atvinnuhúsnæði við Fornubúðir í Hafnarfirði aðfararnótt miðvikudagsins.

Helgi segir aðspurður að enginn grunur sé um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Hins vegar sé eins og alltaf verið að skoða allar hliðar málsins og afla gagna.

„Það er ekkert sem segir í dag að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað og við göngum út frá því að svo hafi ekki verið,“ segir Helgi. Síðan komi í ljós hverju rannsóknin skili.

Lögreglan hefur afhent tryggingafélaginu vettvang eldsvoðans. „Við höfum skilað vettvanginum. Tryggingafélagið fékk hann afhentan seinnipartinn í gær.“

„Við erum núna bara að vinna úr þeim upplýsingum sem við erum með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert