„Alveg ótrúleg tilviljun“

Til stóð að Járnborg ehf. tæki við húsnæðinu sem er …
Til stóð að Járnborg ehf. tæki við húsnæðinu sem er næst til hægri á myndinni strax á morgun. Ekki verður úr þeim áformum. mbl.is/​Hari

Nýr leigjandi átti að taka við á morgun í norðausturhluta hússins sem brann í nótt. Hann gerir það ekki úr þessu. Hann ætlaði að vera byrjaður með starfsemi í húsnæði um miðjan næsta mánuð.

Árni B. Halldórsson heitir hann og rekur járnaverksmiðjuna Járnborg með 18 menn í vinnu. Leigusamningur þeirra átti að taka gildi á morgun, 1. ágúst. Ekki brann í þeim hluta hússins þar sem til stóð að þeir kæmu sér fyrir en hann er engu síður illa leikinn eftir reyk-, sót- og vatnsskemmdir. 

Þeir eru ekki að fara að flytja þangað inn.

„Þetta kemur sér auðvitað mjög illa,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

„Við vorum búnir að gera leigusamning um bilið í norðvesturhluta hússins. Það verður varla úr því. En við vinnum að því að finna lausn og ég efast ekki um að það takist,“ segir hann. Um sinn verður starfsemi Járnborgar áfram á Íshellu 7 í Hafnarfirði. 

Járnborg ehf. sér um smíði steypustyrktarjárns og klippir og beygir …
Járnborg ehf. sér um smíði steypustyrktarjárns og klippir og beygir slíkt járn fyrir byggingariðnað. Skjáskot/Járnborg

„Það var lán í óláni að við vorum ekki komnir með vélarnar inn,“ segir Árni. Það hefði ekki gerst strax á morgun, svo sem, en engu síður stóð til að koma starfseminni af stað í húsnæðinu um miðjan ágúst. „Þetta breytir plönunum hjá okkur.“

Árni nefnir brunann sem varð á Hvaleyrarbraut síðasta vetur, þar sem starfsemi áþekk starfsemi Járnborgar brann til grunna. „Það er ótrúleg tilviljun,“ segir hann. 

Eigendur og leigjendur í húsinu hafa misst umráðaréttinn yfir húsinu til rannsóknaraðila. Þeir hefja sín störf þegar slökkviliðið hefur afhent þeim vettvang. Enn loga glæður í húsinu og það hefur reynst þrautin þyngri að komast að eldinum, sem logar undir braki í rústunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert