Engin rafhlaupahjólaslys hérlendis

Einn af þeim sem sáust á rafhlaupahjóli í miðbænum um …
Einn af þeim sem sáust á rafhlaupahjóli í miðbænum um hádegisbilið í gær. mbl.is/​Hari

Rafhlaupahjól hafa síðustu misseri vaxið í vinsældum bæði hérlendis og erlendis og segja sumir að um „æði“ sé að ræða, svo vinsæl séu hjólin. Er fólk á rafhlaupahjólum ekki óalgeng sjón í miðbæ Reykjavíkur en einnig má sjá fólk þeytast um á þeim í úthverfum borgarinnar.

Víða er sagt frá því í erlendum fréttum að rafhlaupahjólin séu skaðvaldur, og hafa orðið nokkur banaslys beggja vegna Atlantshafsins tengd notkun slíkra hjóla.

Sömu sögu er ekki að segja hér á landi. Ekki er vitað til þess að alvarleg slys hafi átt sér stað vegna notkunar rafhlaupahjóla að sögn Guðbrands Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH). „Þetta hefur ekki borist mér til eyrna sem ægilegt vandamál, en hins vegar vitum við til þess að margur fer geyst á þessum hjólum.“

Þróunin áhugaverð

Raftækjaverslunin ELKO er ein þeirra verslana hérlendis sem hefur selt rafhlaupahjól með góðri raun og segir Óttar Örn Sigurbergsson, innkaupastjóri ELKO, að sala rafhlaupahjólanna hafi verið vonum framar þetta fyrsta ár í sölu og að hjólin virðist sannarlega eiga upp á pallborðið hjá Íslendingum.

„Í Bandaríkjunum er áætlað að salan muni aukast um 100% á næstu fjórum til fimm árum, sem mér þykir hógvær áætlun. Þróunin í stórborgum er einnig áhugaverð þar sem æðið virðist hafa verið styrkt svo um munar af leiguhlaupahjólum,“ segir Óttar. Hafa hugmyndir um slíkar leigur, þar sem vegfarendur taka rafhjól eða rafhlaupahjól á leigu, verið uppi hérlendis, og sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, í byrjun mánaðar að „von bráðar“ gætu borgarbúar ferðast um á rafmagnshlaupahjólum sem þeir eiga ekki sjálfir heldur taka tímabundið á leigu.

Var einnig sagt frá því í Viðskiptamogganum um miðjan síðasta mánuð að bandaríska fyrirtækið Bird, sem býður upp á stöðvalaus rafhlaupahjól til að fara á milli staða, væri áhugasamt um að bjóða upp á þjónustuna hérlendis.

Spurður um neytendahóp hjólanna segir Óttar að hópurinn sé á aldursbilinu 14 til 64 ára, og að karlar séu í meirihluta. „Við í ELKO áætlum ekki að hjólin séu eingöngu fyrir yngri markhóp eins og flestir hefðu haldið enda hefur fullorðið fólk sýnt hjólunum mikinn áhuga og hef ég sjálfur notað þetta töluvert í styttri ferðir í Grafarvoginum,“ segir hann. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »