Höfuðkúpubrotinn eftir árás í Eyjum

Flestir skemmtu sér fallega á Þjóðhátíð, en ekki allir.
Flestir skemmtu sér fallega á Þjóðhátíð, en ekki allir. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Einn maður hlaut höfuðkúpubrot eftir árás í Vestmannaeyjum í gærmorgun og liggur á spítala. Annar maður varð einnig fyrir árásinni og hlaut hann tannbrot. Þrír menn voru handteknir vegna málsins og var þeim sleppt úr haldi í gærkvöldi eftir skýrslutökur.

Þolendur árásarinnar voru sendir með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gær.

Gerðist á VIP-tjaldsvæðinu

Tryggvi Kr. Ólafsson, lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum, segir mbl.is að búið sé að ræða við vitni að árásinni, sem átti sér stað á svokölluðu VIP-tjaldsvæði þjóðhátíðargesta við Áshamar um kl. 5 á sunnudagsmorgun.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglu, sem hefur rætt við öll vitni sem hún veit um. Tryggvi segir að lögregla vilji gjarnan heyra í fleiri vitnum, séu þau til staðar og geta þeir sem urðu vitni að árásinni sett sig í samband við lögregluna í Vestmannaeyjum.

mbl.is