Ekki á pall en fær sjö milljónir

Katrín Tanja Davíðsdóttir fór síður en svo tómhent heim eftir …
Katrín Tanja Davíðsdóttir fór síður en svo tómhent heim eftir heimsleikana í crossfit þrátt fyrir að hafa ekki nælt sér í verðlaunapening, en hún hlaut alls um sjö milljónir í verðlaunafé. Ljósmynd/Instagram

Íslensku keppendurnir á heimsleikunum í crossfit sem fram fóru um helgina fóru síður en svo tómhentir heim þó svo að árangurinn hjá sumum var ekki eins og lagt hafði verið upp með fyrirfram. 

Björgvin Karl Guðmundsson stóð sig best íslensku keppendanna í ár og hafnaði í þriðja sæti í einstaklingsflokki karla. Hann hlaut alls 82.000 dollara í verðlaunafé, eða tæpar 10 milljónir króna. Keppendur fengu vissa upphæð fyrir að komast í gegnum hvern niðurskurð, ásamt því að fá verðlaunafé fyrir efst þrjú sætin í hverri æfingu. Björgvin varð í öðru sæti í tveimur æfingum og þriðja sæti í þremur greinum sem færði honum 7.000 dollara til viðbótar við þá 75.000 sem hann fékk fyrir þriðja sætið í heildarkeppninni. 

Björgvin Karl Guðmundsson stóð sig með glæsibrag á heimsleikunum í …
Björgvin Karl Guðmundsson stóð sig með glæsibrag á heimsleikunum í crossfit um nýliðna helgi.

Katrín Tanja Davíðsdóttir hlaut alls 57.000 dollara í verðlaunafé, eða sem nemur 6,9 milljónum króna. Katrín hafnaði í 4. sæti í einstaklingskeppni kvenna sem skilaði henni 50.000 dollurum. Sigur í tveimur æfingum og þriðja sæti í einni færði henni svo 7.000 dollara til viðbótar. 

Þurí Helgadóttir náði sínum besta árangri á heimsleikunum til þessa og komst í gegnum alla niðurskurði og endaði í 10. sæti sem skilaði henni 21.000 dollurum í verðlaunafé, eða 2,5 milljónum króna. 

Annie Mist Þórisdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir þurftu að bíta í það súra epli að komast ekki í gegnum 10 keppenda niðurskurðinn. Annie endaði í 12. sæti og fékk 16.000 dollara, eða 1,9 milljónir króna, í verðlaunafé. Sara hafnaði í 20. sæti sem skilaði henni 8.000 dollurum í verðlaunafé, sem nemur um 972.000 krónum. 

Íslensku kepp­end­urn­ir sem tóku þátt á heimsleikunum í crossfit í …
Íslensku kepp­end­urn­ir sem tóku þátt á heimsleikunum í crossfit í ár: Annie Mist Þóris­dótt­ir, Katrín Tanja Davíðsdótt­ir, Björg­vin Karl Guðmunds­son, Ragn­heiður Sara Sig­munds­dótt­ir, Oddrún Eik Gylfa­dótt­ir og Þuríður Erla Helga­dótt­ir. Ljósmynd/Aðsend

Yfir tvær milljónir dollara voru greiddar í verðlaunafé á heimsleikunum í ár. Hraustasta kona í heimi, Tia Clair Toomey, hlaut alls 319.000 dollara í verðlaunafé, eða sem nemur um 38,8 milljónum króna. Mat Fraser, sem hlaut titilinn hraustasti maður í heimi fjórða árið í röð, hlaut 322.000 dollara í verðlaunafé, eða 39 milljónir króna. 

Hér og hér má sjá nánari samantekt á verðlaunafé keppenda á heimsleikunum í ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert