Hillir undir ákæru í Mehamn-máli

Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörku, segir rannsókn Mehamn-málsins …
Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörku, segir rannsókn Mehamn-málsins senn lokið og reiknar með aðalmeðferð fyrir héraðsdómi 2. desember. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

„Málið er enn í rannsókn sem fer nú að styttast og við reiknum með að ljúki undir septemberlok,“ segir Anja Mikk­el­sen Ind­bjør, lögmaður og handhafi ákæruvalds lögreglunnar í Finnmörku, í samtali við mbl.is í dag og á við Mehamn-málið svokallaða, en þar líður nú að ákæru á hendur Gunnari Jóhanni Gunnarssyni sem játað hefur hálfbróðurvíg aðfaranótt 27. apríl síðastliðins þegar Gísli Þór Þórarinsson féll fyrir haglabyssuskoti í Mehamn. Gunnar kveðst þó ekki bera sök í málinu.

„Enn eru nokkrir lausir endar og við metum það nú hvort við tökum nokkrar yfirheyrslur í viðbót, það er engan veginn víst og við göngum út frá því að ákæra líti dagsins ljós með haustinu og áætlum að upphaf aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi [Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø] verði í viku 49,“ segir Ind­bjør og á þar með við mánudag 2. desember sem upphafsdag aðalmeðferðar.

Óvíst um ákæru á hendur hinum manninum

Blaðamaður spurði saksóknara hvort reikna mætti með ákæru á hendur öðrum Íslendingi, sem grunaður er um aðild að málinu, og sagði hún afstöðu ekki hafa verið tekna til þess enn þá. „Annars er það héraðssaksóknari sem á lokadóminn um þann hluta málsins,“ sagði Ind­bjør að lokum, en þegar um manndrápsmál er að ræða fara ýmist héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari Noregs með ákæruvald eftir að lögregla lýkur rannsókn sinni.

Horft yfir Mehamn, nyrst í Finnmörku, þar sem harmleikur varð …
Horft yfir Mehamn, nyrst í Finnmörku, þar sem harmleikur varð aðfaranótt 27. apríl í vor. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

 

Staðarmiðillinn iFinnmark, sem rekur læsta fréttadagskrá, ræddi við Torstein Pettersen, deildarstjóra tæknilegrar rannsóknardeildar Finnmerkurlögreglunnar og stjórnanda rannsóknarinnar, í morgun og voru svör hans á svipuðum nótum. Hann sagði nú líða að því að lögregla skilaði málinu fullrannsökuðu í hendur saksóknara þótt vera kynni að Gunnar Jóhann yrði yfirheyrður nokkrum sinnum í viðbót áður en málið teldist fullrannsakað.

Gott samstarf við lögreglu á Íslandi

Pettersen sagði fulltrúa lögreglunnar í Finnmörku hafa verið á Íslandi snemmsumars og átt þar gott samstarf við íslensk lögregluyfirvöld. „Við höfum þar náð að gera okkur skýrari mynd af sambandi þeirra tveggja [hálfbræðranna],“ sagði Pettersen og var þá spurður hvort það hefði verið slæmt áður en til atburðanna í Mehamn kom. „Um það get ég ekki tjáð mig núna, við getum hugsanlega rætt það þegar málið telst fullrannsakað,“ sagði Pettersen við iFinnmark.

Hann sagði frá því að meint banavopn hafi verið til rannsóknar hjá rannsóknarlögreglunni Kripos og á því gerðar skotrannsóknir (n. ballistiske undersøkelser) en Pettersen kaus að tjá sig ekki nánar um gerð skotvopnsins.

iFinnmark ræddi að lokum við Vidar Zahl Arntzen, verjanda Gunnars Jóhanns, sem segir skjólstæðing sinn halda því fram að um hreint slys hafi verið að ræða. „Hann segir að þetta hafi verið hörmulegt og sorglegt slys,“ sagði Arntzen. Gunnar hafi ekki heimsótt hálfbróður sinn til að skaða hann. „Svo kom til uppgjörs [n. konfrontasjon] og [hálf]bróðirinn særðist. Grunaði reyndi að kalla á hjálp. Á þeim grundvelli lýsti hann sig ekki sekan um manndráp,“ sagði Arntzen að lokum við iFinnmark.

Vidar Zahl Arntzen, verjandi Gunnars Jóhanns, segir skjólstæðing sinn halda …
Vidar Zahl Arntzen, verjandi Gunnars Jóhanns, segir skjólstæðing sinn halda því fram að um hreint slys hafi verið að ræða enda kveðst hann ekki telja sig bera sök í málinu. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert