Óráðið veður tekur við

Hlýjast verður á vesturhluta landsins.
Hlýjast verður á vesturhluta landsins. mbl.is/Árni Sæberg

Afar erfitt er að ráða í veðurhorfur fyrir næstu daga en nú þegar norðanáttin er að leggja upp laupana tekur við fremur óráðið veður, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Lægðirnar virðast ekki ná að komast með góðu móti inn á land svo að háar úrkomutölur verður líklega ekki að finna í vikunni. Hitinn hækkar hins vegar dálítið fyrir norðan og austan en í öðrum landshlutum verður breytingin minni. Austlægu áttirnar verða líklega algengastar og má þá gera ráð fyrir að hæstu hitatölurnar verði þá vestanlands.
Hins vegar eru mikil stökk í spánum á milli útgáfa svo allt er opið seinni hluta vikunnar,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga

Norðlæg átt í dag, víða 5-13 m/s, hvassast við austurströndina. Skýjað fyrir norðan og austan og dálítil væta um landið norðaustanvert, en annars þurrt. Hiti 5 til 10 stig um landið norðanvert, en 11 til 17 stig syðra yfir daginn. Kólnar talsvert NA-lands í kvöld.
Austlæg átt á morgun, 5-15 m/s, hvassast syðst. Rigning á köflum sunnan til, en annars líkur á stöku skúrum. Hiti 7 til 11 stig um landið austanvert, en annars 12 til 17 stig.

Á þriðjudag:
Suðaustan 3-10 og bjartviðri en 8-13 og dálítil rigning með suðurströndinni. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast vestanlands. 

Á miðvikudag:
Austan 3-10 og þurrt en 10-15 og rigning með suðurströndinni, einkum þó SA-til. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast vestanlands. 

Á fimmtudag:
Hæg austlæg átt. Væta með köflum um landið austanvert en bjartviðri vestanlands. Hiti breytist lítið. 

Á föstudag:
Norðlæg eða breytileg átt. Sums staðar dálítil væta, einkum N-til. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast sunnanlands. 

Á laugardag:
Útlit fyrir hæga austlæga eða breytilega átt. Skýjað að mestu og sums staðar dálítil væta. Hiti 9 til 14 stig. 

Á sunnudag:
Líkur á vaxandi suðaustanátt seint um daginn og rigningu undir kvöld. Þurrt N- og A-til. Hiti svipaður.

mbl.is