„Fólki er mikið niðri fyrir“

Talið er að hátt í 300 manns hafi mætt á ...
Talið er að hátt í 300 manns hafi mætt á fundinn. Ljósmynd/Aðsend

Húsfyllir á fundi um þriðja orkupakkann sem haldinn var í golfskála Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar í gærkvöldi. Talið er að hátt í 300 manns hafi mætt og hlustaði á erindi frá ræðumönnum á fundinum sem Miðflokksfélag Reykjavíkur og Miðflokksfélag Suðvesturkjördæmis stóðu að í sameiningu.

„Þetta var alveg gríðarlega góður fundur, það var troðfullur salur. Fólk þurfti að sitja alveg frammi í anddyri og fullt af fólki stóð,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali við mbl.is. Vigdís var með erindi á fundinum sem og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins.

Þá komu Birgir Örn Steingrímsson frá samtökunum Orkunni okkar og Ingibjörg Sverrisdóttir ferðaráðgjafi og fóru yfir málið frá þeirra sjónarhól.

Málið er sjóðandi heitt

„Það var farið yfir víðan völl og erindin voru mjög ólík. Erindi mitt sneri aðallega að umhverfis- og auðlindamálum. Sigmundur Davíð fór meira yfir staðreyndir og þinglega meðferð. Þetta var mjög efnismikill fundur og mætingin sýnir að þetta er sjóðheitt mál og fólki er mikið niðri fyrir,“ segir Vigdís sem var sérstaklega ánægð með góða mætingu á fundinn í ljósi þess að hann var hvorki auglýstur í blöðum né útvarpi.

Á morgun hefst þingstubburinn svokallaði þar sem þingsályktunartillögur og lagafrumvörp sem snúa að þriðja orkupakka Evrópusambandsins verða tekin fyrir. Það lítur út fyrir að meirihluti þingmanna styðji innleiðingu þriðja orkupakkans en Vigdís vonast til þess að þingmenn sjái að sér og skipti um skoðun.

Salurinn var troðfullur.
Salurinn var troðfullur. Ljósmynd/Aðsend

„Stærra en Icesave-málið“

„Það getur ekki annað verið en að fólk sjái að sér. Almenningur verður að geta treyst þingmönnum í þessu fulltrúalýðræðiskerfi okkar fyrir því að fara ekki gegn stórum hluta þjóðarinnar,“ segir hún og bætir við:

„Ég ber þá von í brjósti. Miðað við það sem hefur komið fram á fundum hjá okkur og verið skrifað um málið þá veit ég ekki hvernig þingmenn sem ætla að samþykkja orkupakka þrjú geti litið framan í okkur hin. Þetta er svo alvarlegt mál og ef eitthvað er þá er þetta stærra en Icesave-málið var á sínum tíma.“

Ekki hægt að binda hendur þingmanna framtíðarinnar

Hún segir að annað hvort hafi blekkingum verið beitt í umræðum um málið eða að stuðningsmenn innleiðingar þriðja orkupakkans hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel og það sé mjög alvarlegt mál. Það sé ekki hægt að innleiða þriðja orkupakkann og halda því fram að ekki verði lagður sæstrengur hingað til lands í framtíðinni nema með samþykki Alþingis.

„Ef það er ekki hægt að treysta þingmönnum dagsins í dag, þá er ekki hægt að treysta þingmönnum framtíðarinnar því þeir eru bara bundnir sinni sannfæringu. Það er ekki hægt að binda hendur þingmanna framtíðarinnar,“ segir hún og bætir því við að fulltrúalýðræðið í landinu sé orðið skakkt ef á að fara samþykkja innleiðingu þriðja orkupakkans þvert gegn vilja risastórs hluta þjóðarinnar.

Gestir hlustuðu á ræður framsögumanna af miklum áhuga.
Gestir hlustuðu á ræður framsögumanna af miklum áhuga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is