Jákvæðari í garð ferðamanna

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðari nú í garð ferðamanna og …
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðari nú í garð ferðamanna og ferðaþjónustu samanborið við síðustu tvö ár, samkvæmt könnun. mbl,is/Ómar Óskarsson

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðari nú í garð ferðamanna og ferðaþjónustu samanborið við síðustu tvö ár. Á heildina litið hefur viðhorfið verið fremur jákvætt undanfarin misseri samkvæmt könnun Maskínu fyrir Höfuðborgarstofu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í svörum alls staðar á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðar hliðar ferðaþjónustu taldar vega þyngra en neikvæðar hliðar hennar. Karlmenn eru heldur jákvæðari en konur. Könnunin var nú gerð í fimmta sinn og var lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu dagana 3. til 28. maí. Svarendur voru alls 2.392. 

Í könnuninni er spurt út í ýmsa þætti svo sem ónæði, heimagistingu, gestrisni, fjölda ferðamanna í miðborginni og fleira. Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að íbúar í miðborg Reykjavíkur verði meira varir við ónæði af hálfu heimagistingar við heimili sitt en íbúar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Rúmlega 70% íbúa miðborgarinnar telja að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur yfir vetrarmánuðina en tæplega 62% telja hann hæfilegan yfir sumarmánuðina. Rúmlega 36% íbúa miðborgarinnar telja að fjöldinn yfir sumarmánuðina sé of mikill eða allt of mikill en á móti telja á milli 13% og 14% að hann sé of eða allt of lítill yfir vetrarmánuðina.

Um 30% íbúa í Efra-Breiðholti og Grafarholti telja fjölda ferðamanna of lítinn í sínum hverfum yfir þessa mánuði, en um 1,1% íbúa í hverfi 101 telur fjöldann of lítinn í sínu hverfi. 

Meirihluti hhlynntur rekstri heimagistingar

Meirihluti svarenda, eða tæplega 58%, telur að verslun á höfuðborgarsvæðinu hafi eflst með auknum fjölda ferðamanna en færri eru þó þeirrar skoðunar nú en áður. Á milli 64% og 65% telja að framboð afþreyingar á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist með auknum fjölda ferðamanna og rétt yfir 40% telja að lífsgæði í sínu nærumhverfi hafi batnað nokkuð eða mikið með auknum fjölda ferðamanna. 

Spurt var út í heimagistingu og var meirihluti eða 53,6% svarenda mjög hlynntur eða fremur hlynntur því að einstaklingar geti leigt út eigið húsnæði t.d. í gegnum Airbnb í allt að 90 daga á ári. Rétt rúmt 21% var mjög eða fremur andvígt þessu fyrirkomulagi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert