Sakaði Miðflokkinn um útúrsnúninga

Áslaug Arna á Alþingi í morgun.
Áslaug Arna á Alþingi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir þingmenn Miðflokksins hafa snúið út úr niðurstöðu fræðimanna um þriðja orkupakkann.

„Að leggja þessum fræðimönnum það í munn að þeir telji þetta hafa ekkert gildi og ekkert vægi er algjörlega fáránlegt,” sagði Áslaug Arna í andsvari sínu við ræðu Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um þriðja orkupakkann á Alþingi. Þar sagði hann að ef ekki sé vilji fyrir því að fella málið á Alþingi ætti að fresta því eða skoða það nánar og hlusta á rödd þjóðarinnar.

Áslaug Arna sagðist velta fyrir sér hvernig það sé að velja ákveðnar setningar úr áliti þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst um orkupakkann og komast að annarri niðurstöðu en er að finna í álitinu. „Það þarf ekki annað en að lesa niðurstöður álitsins að farið var eftir áliti Stefáns Más og Friðriks Árna Hirst,” sagði Áslaug og nefndi einnig að snúið hafi verið út úr orðum Davíðs Þórs Björgvinssonar, prófessors í lögfræði.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í pontu á Alþingi í dag …
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í pontu á Alþingi í dag í umræðu um þriðja orkupakkann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur svaraði henni þannig að hún hefði ekki nefnt eitt dæmi um að hann hefði snúið út úr eða lagt mönnum orð í munn. Sagðist hann hafa vakið athygli á því sem fræðimennirnir sögðu ekki í bréfi sínu til utanríkismálanefndar.

Áslaug Arna sagðist hafa tekið tvö dæmi um útúrsnúning í ræðu sinni og sagði það vera ákveðinn útúrsnúning að vísa í álitsgerð sérfræðinga en vera ósammála niðurstöðu þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina