Loftgæði í Hagaskóla endurheimt

Hvorki nemendur né starfsfólk hafa kvartað vegna lélegra loftgæða eftir …
Hvorki nemendur né starfsfólk hafa kvartað vegna lélegra loftgæða eftir að skólahald hófst að nýju. mbl.is/ Friðrik Tryggvason

Loftgæði hafa batnað til mun í Hagaskóla, að sögn Ingibjargar Jósefsdóttur, skólastjóra skólans og enginn kvartað undan lélegum loftgæðum síðan skólahald hófst fyrir viku síðan. Ráðist var í aðgerðir til að bæta loftgæði í kennslustofum Hagaskóla í sumar. 

Í sumar greindi Morgunblaðið frá því að lítil loftgæði væru í mörgum stofum skólans sem hefðu áhrif á nemendur. Þeir kvörtuðu undan slapp­leika, höfuðverkjum, auknu mígreni og ann­arri van­líðan. Starfsfólk kvartaði einnig yfir sömu einkennum vegna loftgæðanna. 

Allt opið og kerfið á fullu

„Ég myndi segja að staðan væri bara góð í Hagaskóla. Opnanlegum gluggafögum var bætt við í öllum átta stofunum sem voru til skoðunar í fyrra. Loftspaðaviftur voru settar í loftin og loftræstikerfið var bæði hreinsað mjög vel og stillt. Þegar maður kemur inn í stofurnar núna eru allar hurðir opnar og gluggar sömuleiðis, kerfið á fullu og fólkinu líður vel.“

Ingibjörg segir breytinguna mikla. „Þessar aðgerðir virðast hafa skilað mjög góðum árangri. Gluggarnir hérna hjá okkur snúa meira og minna til suðurs svo það er oft ansi heitt en við trúum því alla vega að þetta hafi haft tilætluð áhrif.“

Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla.
Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla. Ljósmynd/Hagaskóli

Mælingar verða gerðar á loftgæðum í skólanum í náinni framtíð. „Svo verður þetta mælt núna til þess að tryggja að aðgerðirnar hafi örugglega skilað sér,“ segir Ingibjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert