Bjarni boðaði skattalækkanir

Bjarni Benediktsson kynnir fjárlög næsta árs.
Bjarni Benediktsson kynnir fjárlög næsta árs. mbl.is/Árni Sæberg

Skattalækkanir fyrir einstaklinga eru meðal þess sem boðað er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 að því er fram kom í kynningu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020. Hann sagði skattamálin stærstu tíðindi frumvarpsins og að áformum um lækkanir væri hraðað. Bjarni sagði að nú væri sókn í uppbyggingu innviða.

Tekjuskattur einstaklinga verður lækkaður hraðar en áform voru um og mun lækkunin koma að fullu fram árið 2021 í stað 2022. Ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækka um rúmlega 120 þúsund krónur á ári. Heildarumfang hennar á ári er um 21 milljarður króna sem samsvarar um 10% af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga.

Tryggingagjald mun lækka um 0,5 prósentustig, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi þessa árs. „Um áramót hefur tryggingagjald því verið lækkað frá árinu 2013, úr 7,69% í 6,35% sem styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja,“ segir á vef stjórnarráðsins. 

Aukinn kraftur í fjárfestingar

Góð staða ríkisfjármálanna gefur stjórnvöldum tækifæri til að veita efnahagslífinu viðspyrnu og vinna gegn niðursveiflu með öflugri opinberri fjárfestingu þegar úr atvinnuvegafjárfestingu dragi að mati fjármálaráðherra. Framlög til fjárfestinga nema ríflega 78 milljörðum króna og hafa aukist um rúma 27 milljarða króna að raungildi frá árinu 2017.

Bjarni boðaði aukinn kraft í uppbyggingu nýs Landspítala og 28 milljarða króna framlag til fjárfestinga í samgöngum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, framlög vegna smíði nýs hafrannsóknaskips og framlög vegna byggingar Húss íslenskunnar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Mest framlög, miðað við málaflokka, fá heilbrigðismál, 26%, félags-, húsnæðis- og tryggingamál koma þar á eftir með 25% og önnur málefnasvið 24%. Mennta- og menningarmál fá 11% og samgöngu- og fjarskiptamál 5%.

Bjarni boðaði aukna áherslu á umhverfismál og sagði framlög hafa vaxið um 24% á kjörtímabilinu. Sérstaklega nefndi hann ívilnanir til þess að koma heimahleðslustöðvum upp á Íslandi. Í samgöngumálum boðaði Bjarni m.a. kostnaðarþátttöku ríkisins vegna flugfargjalda á landsbyggðinni.

Bjarni boðaði aukna fjárfestingu í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum og átaksverkefni til að hraða þrífösun rafmagns.

Skuldir helmingast frá árinu 2012

Um heildarmynd ríkisfjármálanna sagði Bjarni m.a. að skuldir ríkissjóðs hefðu liðlega helmingast frá árinu 2012. Hann sagði hagvöxt hafa skilað miklu, en að hallalaus rekstur ríkissjóðs hefði einnig spilað stóra rullu. Bjarni velti því upp hvort nú væri kominn tíi að hugsa hvort tímabært væri að hægja á niðurgreiðslu skulda, m.a. með hlutverk ríkisins á skuldabréfamarkaði í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert