Segir sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur

mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér þóttu þessi ummæli mjög óviðeigandi. Að væna okkur millistjórnendur um að taka þátt í ógnarstjórn vegna einhverrar meðvirkni. Mér finnst þetta ekki nokkur hemja og þess vegna ákvað ég eftir 41 árs veru í félaginu að segja mig úr því.“

Þetta segir Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar Ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Málið snýst um þau ummæli Arinbjarnar Snorrasonar, formanns Lögreglufélags Reykjavíkur, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að félagið hefði fengið athugasemdir frá nokkrum lögreglumönnum þar sem kvartað væri yfir ógnar- og óttastjórnun innan embættis ríkislögreglustjóra og talað væri um meðvirkni í efsta lagi stjórnenda.

„Þetta er bara mjög óviðeigandi og alrangt. Þótt verið sé kannski að hafa þetta eftir nokkrum einstaklingum þá endurspeglar það ekki álit allra starfsmanna ríkislögreglustjóra. Þótt einhverjir séu óánægðir með eitthvað er auðvitað ekki hægt að heimfæra það yfir á alla.

Það er að sama skapi mjög óviðeigandi að ræða þessi mál í fjölmiðlum í stað þess að ræða þau við þá sem það ætti að ræða þau við.“

mbl.is