„Orðlaus yfir þessu“

„Að fræða ferðamanninn um ábyrga ferðahegðun er, að ég held, besta vopnið. Svo þurfa bara íslenskir ferðamenn, og aðrir, að vera góðar fyrirmyndir.“ Þessu svarar Laufey Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá markaðsstofu Suðurlands, spurð hvernig hægt sé að sporna við hegðun viðlíka þeirri sem maðurinn í straumnum á brún Skógafoss sýndi af sér.

„Við búum á mjög lifandi og kraftmiklu landi þar sem eru miklar hættur. Við sem erum kunnug staðháttum vitum betur og beitum heilbrigðri skynsemi. En svo veit maður ekki með hvaða hugsun fólk framkvæmir svona. Hvort þetta séu hetjudáðir eða eitthvað annað. Maður er bara orðlaus yfir þessu,“ segir Laufey um uppátæki mannsins.

Ekki vegna skorts á skiltum

Laufey bætir einnig við að örðugt sé að ákvarða hversu miklar leiðbeiningar eða hömlur eigi að setja á ferðir ferðamanna. Við Skógafoss séu til að mynda göngustígar, og almenna reglan sé að fólk eigi ekki að fara út af þeim. Þá sé auðvitað ljóst að stuttbuxnamaðurinn í straumnum hafi ekki komið sér út í ána vegna skorts á skiltum eða göngustígum.

Algengt er að ferðamenn láti hjá líða að skoða viðvörunarskiltin …
Algengt er að ferðamenn láti hjá líða að skoða viðvörunarskiltin í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtalið berst að fleiri stöðum á Suðurlandi þar sem ferðamenn hafa komist í hann krappan, sem dæmi Reynisfjöru, og segir Laufey að þar séu mýmörg viðvörunarskilti. „Þetta er líka spurning um að viðkomandi aðili beri ábyrgð á því að lesa leiðbeiningarnar,“ segir hún og bætir við: „Fólk sem ferðast um Ísland þarf alltaf að hafa þetta á bak við eyrað. Ekki vera að fara of nálægt bjargbrún og ekki vera að fórna sér og sínu öryggi fyrir eina góða „selfí“.“

mbl.is