Vonast eftir breyttri niðurstöðu

Dómarar við Landsrétt í júní 2017. Ásmundur Helgason er efst …
Dómarar við Landsrétt í júní 2017. Ásmundur Helgason er efst til hægri. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

„Mér finnst mjög skiljanlegt að efri deildin taki málið til skoðunar. Maður bindur auðvitað vonir við að þetta leiði til breytinga á niðurstöðunni, en það er ekki á vísan að róa með það,“ segir Ásmundur Helgason, dómari við Landsrétt, í samtali við mbl.is um fregnir þess efnis að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) hafi samþykkt að taka fyrir lands­rétt­ar­málið, sem fjall­ar um það hvernig staðið var að skip­un fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt.

Eins og greint var frá í vor óskaði Ásmundur eftir launuðu leyfi fram að áramótum eftir að MDE komst að þeirri niður­stöðu í mars að ís­lenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein mann­rétt­inda­sátt­mál­a Evrópu með skip­an fjög­urra dóm­ara í Lands­rétt sem ekki voru á lista sér­stakr­ar hæfis­nefnd­ar. Ásmundur var einn fjögurra sem ekki voru á téðum lista. 

Önnur staða uppi nú

Í gær sagði Björg Thorarensen lagaprófessor að líklegt væri að niðurstaða yfirdeildar MDE myndi ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi eftir ár, og er því sú spurning uppi hver staðan sé þegar umsótt leyfi líður. Segir Ásmundur að ef ekkert breytist sé allt eins líklegt að hann sæki um áframhaldandi leyfi meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu. 

Ásmundur Helgason er í hópi fjögurra dómara sem Sigríður Á. …
Ásmundur Helgason er í hópi fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði við Landsrétt þegar dómstólnum var komið á laggirnar í upphafi árs 2018, en voru ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu.

„Það má segja að nú sé svolítið önnur staða uppi. Þ.e.a.s. það liggur ljóst fyrir að þessi texti, þessi dómur sem birtist í mars, verður ekki það sem ræður úrslitum,“ segir Ásmundur en bætir við: „Jafnvel þótt það liggi fyrir að þetta verði ekki sá texti sem endanlega ræður úrslitum þá hefur þetta þau áhrif, á mann sjálfan, að maður metur stöðuna þannig að það ríki ennþá ákveðin óvissa. Það er ástæðan fyrir því að maður sækir um leyfi. Maður vill ekki setja málsaðila í þessa stöðu, að þurfa einhvern veginn að sæta því að vera ekki fullvissir um að dómsúrlausn sem maður kemur nálægt sé endanleg niðurstaða.“ 

Segist Ásmundur ekki vera búinn að taka endanlega ákvörðun um hvað hann geri þegar leyfinu lýkur um áramótin, hann þurfi að meta stöðuna þá. Verði engar breytingar gerðar, sem dæmi að fjölga dómurum við dómstólinn, og hann gæti þá sótt um stöðuna að nýju, „þá finnst mér kannski líklegast að maður sækist eftir því að vera áfram í leyfi. Það er sú leið sem við verðum að fara til þess að hægt sé að setja [dómara] í okkar stað. Svo að dómstóllinn sé starfhæfur“.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Yfirdeild dómstólsins mun taka Landsréttarmálið fyrir, …
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Yfirdeild dómstólsins mun taka Landsréttarmálið fyrir, og mun niðurstaða í fyrsta lagi liggja fyrir eftir ár, telur lagaprófessor. Ljós­mynd/​ECHR

Niðurstaða Sigríðar málefnaleg

Ásmundur segir að niðurstaða MDE frá því í vor hafi verið óvænt, hann hafi talið hana afar ólíklega áður en hún var birt, og segist hafa verið ósammála henni. Segir hann að þeir hnökrar sem þóttu hafa verið á málsmeðferðinni hafi verið formlegs eðlis en ekki efnislegs, og því sé „ofboðslega langsótt“ að heimild dómara til að sinna starfsskyldum sínum bíði hnekki vegna þess. „Þetta er málsmeðferðarannmarki, þ.e. formannmarki.“

Landsréttarmálið svokallaða hefur eftirminnilega dregið dilk á eftir sér. Sigríður …
Landsréttarmálið svokallaða hefur eftirminnilega dregið dilk á eftir sér. Sigríður Á. Andersen sagði af sér eftir að niðurstaða MDE lá fyrir í vor. Þá tók Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tímabundið við sem dómsmálaráðherra, og fyrir helgi var tilkynnt að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir yrði loks nýr dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir hann jafnframt að hér sé um að ræða ákvörðun handhafa veitingarvalds, dómsmálaráðherra, og segir: „Þá er það þannig að ráðherra fer með veitingarvaldið. Í því felast ákveðnar heimildir. Meðal þeirra er að leggja áherslu á önnur atriði en þessi álitsgefandi nefnd, hæfnisnefndin svokallaða, leggur til grundvallar. Ráðherra hefur, innan ákveðinna marka, heimildir til að breyta forsendunum. Þær breytingar þurfa að vera málefnalegar og eðlilegar. Það er enginn sem efast um það að sú áherslubreyting sem ráðherra kemur með inn í þetta dæmi hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þetta er, að mínu viti, mjög eðlileg ráðstöfun þegar þú ert að stofna nýjan dómstól. Að þú viljir fá fólk sem hefur staðgóða og góða reynslu af dómstólum. Niðurstaða [ráðherra] er alveg í samræmi við þá áherslubreytingu.“

mbl.is