Áreiðanlegast að fjölga dómurum við Landsrétt

„Fyrirliggjandi dómur dómstólsins er ekki bindandi þannig að það er …
„Fyrirliggjandi dómur dómstólsins er ekki bindandi þannig að það er áfram tiltekin óvissa um endanlega niðurstöðu Mannréttindadómstólsins,“ segir Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, um ákvörðun yfirdeildar MDE að fjalla um Landsréttarmálið svokallaða. mbl.is/Hari

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, segir nauðsynlegt að Landsréttur geti starfað í eðlilegu umhverfi á meðan niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu um landsréttarmálið er beðið.

„Það blasir við að dómurinn þarf að vera fullskipaður,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is og segir hún það í höndum stjórnvalda að grípa til aðgerða, til dæmis með því að fjölga dómurum við Landsrétt varanlega. Þá leið telur Ingibjörg áreiðanlegasta. 

Yfirdeildin hefur ákveðið að fjalla um landsréttarmálið svokallaða sem fjall­ar um það hvernig staðið var að skip­un fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt. Dómararnir fjórir hafa ekki dæmt við réttinn frá því að Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm sinn í mars. Tveir óskuðu eftir launuðu leyfi til áramóta en hinir ekki. Því hefur einungis verið ráðið í stöður dómaranna tveggja sem óskuðu eftir leyfi. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtal við mbl.is fyrr í dag að dómararnir dæmdu sjálfir um sitt hæfi og tækju væntanlega einhvern tíma núna til að meta stöðu sína að nýju. 

Málsmeðferð gæti tekið á bilinu eitt til tvö ár. Ef dómurum verður fjölgað segir Ingibjörg að þegar endanleg niðurstaða liggi fyrir verði hægt að taka ákvörðun um það hvort dómurum yrði fækkað aftur. „Til skamms tíma skiptir máli að dóminum séu skapaðar þær aðstæður að hann geti starfað með fullum afköstum,“ segir Ingibjörg. 

mbl.is