Dagur ræði um Sorpu og fleiri fyrirtæki

Samþykkt var í borgarstjórn að fela borgarstjóra að taka upp …
Samþykkt var í borgarstjórn að fela borgarstjóra að taka upp viðræður um fyrirkomulag á rekstri og stjórnun sameiginlegra fyrirtækja sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi stjórnar og fulltrúaráðs SSH. Kveikjan að umræðunni var hár bakreikningur Sorpu sem um hefur verið fjallað og er rekin í byggðasamlagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjórn samþykkti í kvöld tillögu um að fela borgarstjóra að taka upp viðræður um fyrirkomulag á rekstri og stjórnun sameiginlegra fyrirtækja sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi stjórnar og fulltrúaráðs SSH [Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu]. Minnihluti borgarstjórnar sat hjá að undanskildum Sósíalistaflokknum sem greiddi atkvæði með meirihlutanum.

SSH starfar á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga um landshlutasamtök sveitarfélaga og er markmið þeirra að vera vettvangur samráðs og samstarfs aðildarsveitarfélaga, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og vera sameiginlegur málsvari. SSH er jafnframt sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni auk þess sem fulltrúaráð SSH hefur það skýra hlutverk að mynda samráðsvettvang vegna reksturs þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni,“ sagði í tillögunni.

Sambandsleysi milli eigenda og stjórna

Tillagan sem samþykkt var að lokum var breytingatillaga Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar, en í upphafi var lögð fram tillaga Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, um að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum yrði skoðuð með tilliti til aukinnar lýðræðislegrar aðkomu Reykvíkinga að þeim. Kveikjan að umræðunni var þungur bakreikningur sem barst Reykjavíkurborg frá Sorpu vegna mistaka í fjárhagsáætlanagerð og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið.

Í greinargerð með tillögu Kolbrúnar kemur fram að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hafi árið 2011 gert stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar, þ.e. Strætó, Sorpu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þar hafi komið fram að sambandsleysi virtist vera milli eigenda þeirra og stjórna þeirra. Stjórnir félaganna hefðu stundum farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel tekið veigamiklar ákvarðanir sem ekki hafi fallið að væntingum eigendanna.

Þá er bent á að í stjórn Sorpu geti Reykjavík ekki í krafti atkvæða sinna tekið ákvarðanir um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og meiri háttar skuldbindingar nema með stuðningi a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga.

Fannst tillaga Kolbrúnar óskýr

Í tillögu Kolbrúnar segir að byggðasamlög, eins og þau starfi nú, séu fjarlæg hinum almenna borgara. „Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Innan þeirra fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi mun byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Lýðræðishallinn vex. Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda. Reykjavík getur ekki í núverandi byggðasamlögum tekið ákvarðanir um mikilvæg atriði sem kunna að skipta borgarbúa miklu án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri langmestu fjárhagslegu ábyrgðina,“ segir í tillögunni.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, sagði tillögu Kolbrúnar óskýra og lagði fram breytingartillögu. Í henni var fyrrnefnt lagt til, þ.e. að borgarstjórn samþykki að fela borgarstjóra að taka upp viðræður um fyrirkomulag á rekstri og stjórnun sameiginlegra fyrirtækja sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi stjórnar og fulltrúaráðs SSH. 

mbl.is