Uppsögninni ætlað að draga athygli frá ábyrgð stjórnar

Björn H. Halldórsson.
Björn H. Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

„Niðurstaða stjórnar Sorpu bs. fyrr í dag um að segja mér upp starfi framkvæmdastjóra er mér mikil vonbrigði enda er ekkert út á störf mín að setja. Uppsögninni virðist því einkum ætlað að varpa athyglinni frá ábyrgð stjórnar á þeirri áætlanagerð SORPU bs. sem er til umræðu," segir í yfirlýsingu frá Birni H. Halldórssyni.

Greint var frá því fyrr í dag að ákvörðun hefði verið tekið á stjórnarfundi SORPU bs. að segja Birni upp störfum. Þar segir að ákvörðunin hafi meðal annars átt sér stoð í nýlegri skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um stjórnarhætti og áætlanagerð vegna gas- og jarðgerðarstöðvar þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við störf og upplýsingagjöf framkvæmdastjóra og gerð kostnaðaráætlana.

Ákvörðunin tekin með pólitísku „handafli“

Í yfirlýsingunni segir Björn að ákvörðun um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi hafi verið ákveðin af stjórn SORPU bs. samkvæmt fyrirmælum frá eigendafundi SORPU bs. á grundvelli kostnaðaráætlanar sem stjórn og eigendur hafi útbúið sjálfir út frá eigin forsendum. Hann hafi ekki samþykkt þá kostnaðaráætlun og hafi ekki gert tillögu um hana – það megi sjá í fundargerðum.

„Þessi ákvörðun var því tekin með pólitísku „handafli“ til að tryggja að framkvæmdir hæfust sem fyrst og án tillits til óvissu um kostnað, en sú óvissa hlaut reyndar alltaf að verða umtalsverð með hliðsjón af flækjustigi þessarar einstæðu framkvæmdar. Þessi ákvörðun helgaðist að mínu viti af ríkri kröfu um að uppbyggingu stöðvarinnar og tengdum framkvæmdum væri lokið fyrir árslok 2020.“

Ábyrgð sé á framkvæmd stjórnar en ekki framkvæmdastjóra

Björn telur að stjórnarmenn og eigendur SORPU bs. „hafi hér ætlað að skáka í því skjóli að framkvæmdum yrði lokið talsvert fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar 2022. Kjósendur væru því ólíklegir til að minnast málsins þegar þar að kemur.“

Hann bendir á að það komi skýrt fram í eigendastefnu SORPU að áhættumat í tengslum við lántökur séu á ábyrgð og hendi stjórnarmanna en ekki framkvæmdastjóra.

Þá segist hann vera borinn þeirri fjarstæðu að hafa leynt stjórn upplýsingum um greiðsluáætlanir og að sú staðhæfing sé studd af innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar með áætlun frá verkfræðistofu sem hann hafi aldrei séð og líklega enginn starfsmaður SORPU.

„Sýnir það hversu hroðvirknislega hefur verið staðið að rannsókn málsins.“

Innri endurskoðandi vanhæfur vegna fjölskyldutengsla

Hann segist ekki kunna neinar skýringar á því hversu illilega innri endurskoðandi hrapar að röngum niðurstöðum en það sé þó ljóst að hann hafi verið bersýnilega vanhæfur til að framkvæmda rannsóknina enda sé móðurbróðir hans í stjórn Íslenska gámafélagsins hf.

„Það félag er einn helsti keppinautur SORPU og hefur haft alveg sérstakt horn í síðu SORPU svo árum skiptir. Meira að segja vann félagið gegn því að útboð vegna gas- og jarðgerðarstöðvarinnar færu fram í eðlilegum takti.“

Þá segir hann að aðdragandi og meðferð stjórnar í málinu gegn honum hafi verið í skötulíki. Honum hafi verið veittur lögbundinn andmælafrestur en aðeins í orði kveðnu. Hann hafi ekki fengið öll gögn málsins afhent og að ásetningur stjórnarinnar að ganga gegn hans rétti hafi verið einbeittur.

mbl.is