Dæmi um spillingu hjá lögreglu

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að kallað hafi verið eftir því að hann útskýri ummæli sín um spillingu í viðtali við Morgunblaðið. Hann segist meðal annars hafa verið að vitna í niðurstöður GRECO-skýrslunnar er hann gerði spillingu innan lögreglunnar að umtalsefni.

Fjallað var um skýrslu GRECO, ríkjahóps gegn spillingu innan Evrópuráðsins, í Morgunblaðinu í gær.

Fulltrúar GRECO komu til Íslands haustið 2017 og ræddu meðal annars við dómsmálaráðherra, starfsmenn dómsmálaráðuneytisins og ríkislögreglustjóra. Markmiðið var m.a. að meta árangur aðgerða til að draga úr spillingu meðal embættismanna í stjórnunarstöðum.

Meðal niðurstaðna GRECO var að í íslenska stjórnkerfinu væri ekki sérstakt embætti sem bæri ábyrgð á eftirliti með málum sem varða spillingu og skylt misferli innan lögreglu.

Þá var rifjað upp að í nóvember 2015 hefði íslenskur lögreglumaður verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að stinga hraðasektum í eigin vasa. Þá hefði lögreglumaður verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi í apríl 2017 fyrir að selja trúnaðarupplýsingar til eiturlyfjasmyglara.

Skýrsluhöfundar fjölluðu einnig um áhættuþætti hvað varðar mögulega spillingu innan lögreglu og hvernig lág grunnlaun lögreglumanna þættu vera áhyggjuefni.

Trúnaðarskjal hafi lekið út

Af öðrum dæmum má nefna að Morgunblaðið sagði í vikunni frá því að rannsókn ríkissaksóknara á meintum leka á viðkvæmu trúnaðarskjali lögreglunnar, sem rataði í hendur verjanda í svonefndu EuroMarketmáli, hefði verið hætt.

Fjögur embætti voru sögð hafa komið að rannsókn EuroMarket-málsins og hafa haft aðgang að umræddu minnisblaði; lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóri og tollstjóri. Um væri að ræða eina umfangsmestu rannsókn lögreglu á skipulegri glæpastarfsemi.

Meðal annars sagði Fréttablaðið frá því í janúar í fyrra að haldlögð verðmæti hefðu horfið úr hirslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir húsleit á kampavínsklúbbnum Strawberries. Þannig hefði lögreglan í húsleitum tengdum málinu lagt hald á ýmsa gripi, á borð við Rolex-úr, skartgripi, þar á meðal erfðagripi, og reiðufé.

Var verðmæti munanna talið hlaupa á milljónum króna.

Eftir opnuviðtal við Harald í Morgunblaðinu laugardaginn 14. september hefur mikil umræða skapast um lögreglumál á Íslandi. Hafa ýmsir kallað eftir nánari skýringum hans á meintri spillingu.

Hann segir umræðuna hafa tekið óvænta stefnu.

„Umfjöllun um spillingu í viðtali í Morgunblaðinu fyrir skömmu byggir meðal annars á því sem fram kemur í skýrslu GRECO um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds og löggæslu á Íslandi. Ég er að vísa til hennar og þeirra ábendinga og viðvarana sem þar koma fram, en einnig til einstakra mála sem komið hafa upp á undanförnum árum. En orð mín um spillingu hafa fengið óvænt flug og verið útfærð í þá veru að ég hafi sagt að það sé grasserandi almenn spilling innan lögreglunnar. Það hef ég aldrei sagt, hvorki í þessu viðtali né annars staðar. Þannig að þeir sem halda þessu fram ættu að lesa þetta viðtal.“

Vísaði í varnaðarorðin

Spurður hvort hann telji að ummælin um spillingu í viðtalinu, sem voru um 30 orð af 3.500 orðum, hafi vísvitandi verið oftúlkuð kveðst Haraldur ekki geta dæmt um það.

„Ég er aðeins að segja að það er búið að leggja of mikla alhæfingu í þessi orð mín í viðtalinu, þar sem ég var fyrst og fremst að vísa í varnaðarorðin í GRECO-skýrslunni og þessi tilvik sem hafa komið upp og þar eru reifuð.“

Starfa hjá 11 embættum

1. febrúar síðastliðinn voru alls 664 lögreglumenn hjá ellefu embættum. Er um að ræða níu embætti lögreglustjóra og embætti ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara. Að auki voru afleysingamenn, nemar sem afleysingamenn og héraðslögreglumenn þá starfandi.

Upplýsingarnar eru sóttar í svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanns Miðflokksins.

Þá voru starfandi alls 138 rannsóknarlögreglumenn og voru þar af 95 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og 24 hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Heildarkostnaður við embættin var 65,4 milljarðar króna. Loks var fjöldi stöðugilda hjá embættunum um 700.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert