„Á að vera svo kúl og nett“

Karítas Rós Herdísardóttir (t.v) og Kristin Ros Guevarra Tamarao (önnur …
Karítas Rós Herdísardóttir (t.v) og Kristin Ros Guevarra Tamarao (önnur frá hægri) ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fremsta bekk í skólastofu í Fellaskóla í morgun þar sem áhersluatriði Forvarnardagsins 2019, sem haldinn verður á miðvikudag, voru rædd. mbl.is/Árni Sæberg

9,5% nemenda í 9. bekk hafa notað rafsígarettu 20 sinnum eða oftar en í 10. bekk er hlutfallið orðið 17,8% á landsvísu. Á sama tíma eykst orkudrykkjanotkun og 42% ungmenna í 9. bekk fá ekki nægan svefn. 

Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar frá Rannsóknum og greiningum. Kristin Ros Guevarra Tomarao og Karítas Rós Herdísardóttir, nemendur í 9. bekk við Fellaskóla, segja orkudrykki og rafrettur orðna áberandi „fylgihluti“ nemenda á unglingastigi. „Það á að vera svo „kúl“ og nett,“ segir Kristin. 

Sérstakur kynningarfundur um forvarnardaginn, sem haldinn verður í flestum grunn- og framhaldsskólum á miðvikudaginn, var haldinn í Fellaskóla í morgun. Kristin og Karítas eru á meðal nemenda í 9. bekk sem tóku á móti forseta Íslands, borgarstjóra, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og full­trúum þeirra sam­taka og stofn­ana sem standa að forvarnardeginum. Á fundinum  voru áherslur forvarnardagsins í ár kynntar, en þær eru mikilvægi svefns og aukin notkun orkudrykkja og rafrettna. 

Samvera með fjölskyldu skiptir máli

Aðspurð hvernig sé hægt að vekja athygli á þessum þáttum og gera betur segir Karítas svarið einfalt. „Að vera með fjölskyldum, passa að drekka ekki mikið af orkudrykkjum og veipa ekki og sofa nóg.“

Í ár hefur vakið athygli hve notkun rafrettna eykst hratt meðal íslenskra unglinga. Nýleg könnun bendir til að 9,5% nemenda í 9. bekk hafi notað rafsígarettu 20 sinnum eða oftar en í 10. bekk er hlutfallið orðið 17,8% á landsvísu.

Í framhaldsskólum notuðu 23,3% nemenda rafrettur daglega undanfarna 30 daga árið 2018 en árið 2016 voru það 9,8% nemenda. Rannsóknir sýna að þeir sem nota rafrettur eru mun líklegri en aðrir til að byrja að nota venjulegar sígarettur.

„Það er búið að koma með sannanir að þetta sé ekki gott fyrir líkamann en það er eins og þau hlusti ekki og haldi ennþá að þetta sé kúl,“ segir Karítas. 

Karítas, Guðni Th., Kristin og Aldís hlusta á Dag B. …
Karítas, Guðni Th., Kristin og Aldís hlusta á Dag B. Eggertsson ræða komandi Forvarnardag. mbl.is/Árni Sæberg

Embætti landlæknis vill einnig beina sjónum að svefnvenjum ungmenna í tengslum við Forvarnardaginn. Ný könnun frá Rannsóknum og greiningu sýnir að 42% ungmenna í 9. bekk og 54% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan svefn. Í framhaldsskólum sofa nemendur enn minna en í grunnskólum og er ljóst að ónógur svefn dregur úr vellíðan og minnkar starfsþrekið. 

Þegar sambandið á milli notkunar orkudrykkja og svefns er skoðað má sjá að þeir, sem drekka fleiri orkudrykki, eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í grunnskólum drekka 58% þeirra, sem sofa í um 7 klst. og minna, einn eða fleiri orkudrykki daglega; og í framhaldsskólum neyta 54% þeirra sem sofa um 6 klst. og minna fjögurra orkudrykkja eða meira daglega.

Mikil koffínneysla hefur mjög slæm áhrif á svefnvenjur, þrek og …
Mikil koffínneysla hefur mjög slæm áhrif á svefnvenjur, þrek og líðan unga fólksins. Tafla/Embætti landlæknis

Öskur leysa engan vanda

Karítas og Kristin eru sammála um að dagur eins og forvarnardagurinn sé hjálplegur til að vekja athygli á málefnum sem varða ungmenni. Á fundinum í skólanum í morgun sátu þær sitt hvorum megin við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og sögðu þær það skemmtilega reynslu. Þá eru þær sammála forsetanum að ótta­stjórn­un og ógn væri ekki rétta leiðin til að beina ung­menn­um nú­tím­ans á beinu braut­ina.     

„Ef maður er að gera eitthvað sem á ekki að gera er betra að öskra ekki á krakkana, þá eru meiri líkur á að þau halda áfram, það á frekar að tala rólega við þau,“ segir Kristin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert