Vill „ná sátt um samkomulagið“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir ýmislegt vanta í nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu.

Full­trú­ar rík­is­valds­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu und­ir­rituðu í síðustu viku sam­komu­lag um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða og al­menn­ings­sam­gangna næstu fimmtán árin. Gert er ráð fyr­ir að fjár­fest verði fyr­ir 120 millj­arða króna. Mun ríkið leggja fram 45 millj­arða, sveit­ar­fé­lög­in 15 millj­arða og loks er gert ráð fyr­ir að sér­stök fjár­mögn­un standi und­ir 60 millj­örðum. Á sú sér­staka fjár­mögn­un að vera tryggð með end­ur­skoðun gjalda af öku­tækj­um og um­ferð í tengsl­um við orku­skipti eða með bein­um fram­lög­um af sölu á eign­um rík­is­ins. 

Samkomulagið var til umfjöllunar á borgarstjórnarfundi í dag.

„Það er ýmislegt sem er ánægjulegt í þessum sáttmála. Í fyrsta lagi er ekki lengur deilt um vandann, hann er öllum ljós og staðfestur. Það er ekki lengur deilt um að það þurfi að setja framkvæmdarfé inn á höfuðborgarsvæðið, lengi vel var deilt um það. Það er líka með þessu samkomulagi verið að taka fyrir eða hætta með þetta framkvæmdastopp sem er búið að vera í gangi í bráðum 9 ár,“ sagði Eyþór í ræðu sinni á fundinum. 

„Það er líka ánægjulegt að ríkið sé tilbúið að koma með meira fjármagn inn á svæðið en hefur verið, en þessar tölur eru svolítið stórar því þær eru til 15 ára. Ef við horfum á þessa 45 milljarða sem ríkið er að koma með, eru það þrír milljarðar á ári. Ef við horfum tilbaka hefur ríkið verið að koma með tvo milljarða á ári, þannig að aukningin er bara einn milljarður á ári. Það er hið eiginlega framlag ríkisins, sem er tilgreint í samningum. Það er aukning úr sögulegri lægð, tveimur milljörðum sem er afskaplega lítið, upp í þrjá,“ sagði Eyþór. 

Segir stóru tölurnar vera veggjöld

Þá segir Eyþór að aukning í framlagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé sú sama eða einn milljarður. 

„Þetta er framlag ríkis og sveitarfélaga, einn milljarður frá hvorum.

„Síðan eru það stóru tölurnar. Það eru veggjöldin sem eru upp á heila fjóra milljarða á ári. Ef við tökum veggjöldin og ríkispeningana saman sem „nýja peninga“ er það nýr peningur upp á einn milljarð frá ríkinu og fjóra milljarðar úr vösunum okkar, veggjöldunum. Það er mikilvægt að staldra við og átta okkur á því að 80% af „nýju peningum“ eiga að koma úr hinum vasanum. 

„Þá er svo mikilvægt að það standist sem er sagt, að það verði jafnræði og að sá vasi sem núna greiðir fyrir veggjöld út um allt land, að hann verði ekki tæmdur áfram á sama tíma og við seilumst í hinn. Sporin hræða, hvort sem um er að ræða loforð sem eru svikin eða skatta. Það er svo oft að skattar séu lagðir á eða gjöld sem halda svo áfram að vera. Við erum þegar að borga mjög mikið.“

Óljóst hvernig veggjöld verði útfærð

Þá sagði Eyþór það vera óljóst hvernig veggjöldin, sem eiga að standa undir sérstakri fjármögnun upp á 60 milljarða, verði útfærð. 

„Ef við aðeins súmmerum upp því sem er ósvararð varðandi veggjöldin, þá hefur ýmsum aðferðum verið fleygt og ýmsum nöfnum verið fleygt. Ég tók niður nokkur heiti af veggjöldunum sem hafa verið í umræðunni síðustu daga. Það hafa verið rædd tafargjöld, flýtigjöld, umferðargjöld, mengunargjöld, vegagjöld og umferðartollar, ég hef nú ekki náð fleiri heitum. Það er von að fólk verði ruglað í ríminu þegar það eru svona mörg heiti og síðan eru útfærslurnar margar. 

„Það hefur verið talað um tollhlið, það hefur verið talað um kílómetragjald, það hefur verið talað um að nota númerin og það hefur verið talað um að gera þetta um allt land eða ekki. Það hefur verið talað um að gera þetta fyrir sértæka flýtiframkvæmd hér á höfuðborgarsvæðinu og á sama tíma sagt að jafnt skuli yfir alla ganga. Það er öllum ljóst sem eitthvað kunna í reikningi, að þetta tvennt gengur ekki saman. Það verður ekki bæði tekið aukalega og tekið jafnt. Meira að segja refurinn veit það, þegar hann skipti ostinum. 

„Við verðum að fá botn í þetta mál. Það er ekki kominn botn í þessu samkomulagi. Þetta þýðir að Alþingi núna í október fær það verkefni að vinna út hvernig á að taka gjaldið af fólki. Það er nú líka þar sem sporin hræða. Síðast þegar þetta gerðist var það náttúrupassinn þar sem útfærsla gjaldanna var færð í hendur Alþingis og það endaði með því að það var aldrei klárað. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvað sé í samningum og hvað sé ekki í samningum,“ sagði Eyþór. 

Þá sagði Eyþór að enn væri ljóst hvernig rekstur borgarlínu eigi að fara fram. 

„Það er verk að vinna. Að ná sátt um sáttmálann svo hann standi undir nafni og ég vona að allri sem komi að þessu starfi, nái að leysa þessi óleystu mál. Það er hagur okkar allra að það verði farið í framkvæmdir, almenningssamgöngur verði bættar, hjólastígar verði betri og göngustígar sömuleiðis, að farið verði í brúarsmíð, að Sundabraut komi og að umferðin hér á höfuðborgarsvæðinu verði betri.

„Ég óttast það að þegar við förum af stað með hálfkvaðna vísu, að það vanti botninn,“ sagði Eyþór. 

Samkomulagið mikil tímamót

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í ræðu sinni að samkomulagið væri mikil tímamót. Verið væri að sammælast um mikilvægi þess að leita grænna leiða til að bæta samgöngur til framtíðar.

„Í fyrsta lagi eru það í sjálfu sér mjög mikil tímamót að það hafi náðst samkomulag um þessa hluti. Skýra framtíðarsýn, framkvæmdaráætlun og fjármögnun á henni til næstu 15 ára. Framtíðarsýnin skiptir ekki minnstu máli, en það að henni fylgi framkvæmdaráætlun og síðan tillögur um fjármögnun er gríðarlega mikilvægt vegna þess að framtíðarsýnin ein og sér leiðir ekki til þeirra breytinga sem við viljum sjá í samgöngum höfuðborgarsvæðisins. 

Dagur B. Eggertson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertson, borgarstjóri. mbl.is/​Hari

„Miðað við þær framkvæmdir sem við höfum verið í á höfuðborgarsvæðinu er stærðargráðan slík að við hefðum mátt búast við því að þetta tæki okkur um 50 ár það sem núna verður á næstu 15 árum. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni,“ sagði Dagur. 

Stefna að minni umferð 

„Ástæðurnar eru vel þekktar. Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum í loftgæða- og loftlagsmálum. Við þekkjum að álagið í umferðarkerfinu er að aukast, það er vegna þess að þegar höfuðborgarsvæðið fór að stækka og þróast var byggðinni dreift mjög mikið án þess að efla almennings-samgöngur eða valkosti í samgöngum eins og hefði þurft að gera samhliða því. Alltof margir reyna að komast eftir sömu stofnvegum einir eða fáir í bíl og þess vegna hefur umferð verið að þéttast. 

„Við erum að stefna að minni umferð, minni mengun, minni neikvæðum áhrifum frá umferð. Við erum að treysta val fólks í græna átt og styðja þannig við lífsgæði á svæðinu auk þess sem vel skipulagt höfuðborgarsvæði og gott umferðarkerfi er auðvitað samkeppnismál og mikilvægt fyrir bæði atvinnulíf og mannlíf,“sagði Dagur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert