Þurfa að finna gistingu fyrir 1800 manns

Nú eru allir farþegar loks farnir frá borði.
Nú eru allir farþegar loks farnir frá borði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við kláruðum að tæma allar vélarnar klukkan korter í níu í kvöld,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Ekki hefur verið hægt að nota landgöngubrýr í dag vegna veðurs og sat fjöldi fólks fastur í flugvélum vegna þessa. 

Icelandair vinnur nú að því að koma 1.700 til 1.800 manns á hótel sem komast ekki frá landinu vegna veðurs. Það er flókið verkefni að sögn Ásdísar enda mörg hótel þétt setin.

„Það var til dæmis verið að bjóða fólki að fara í Borgarnes eða á Hótel Glym. Það eru líka margir sem eru að bóka sjálfir til dæmis Airbnb eða eitthvað slíkt og munu síðan rukka okkur.“

Öllum brottförum Icelandair og fleiri flugfélaga frá landinu var aflýst síðdegis og í kvöld vegna hvassviðris.

mbl.is