Eigum að hlusta á unga fólkið sem skrópar

„Við ættum öll að setja stjórnmálaskoðnir og ágreining til hliðar …
„Við ættum öll að setja stjórnmálaskoðnir og ágreining til hliðar og sameinast í vilja okkar til að vernda norðurslóðir. Verkefnið er risavaxið en lausnirnar eru til staðar,” sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í opnunarávarpi sínu á Arctic Circle í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra gerði um­hverf­is­mál á norður­slóðum og mikilvægi þess að hlusta á unga fólkið að um­tals­efni sínu í ræðu sem hún flutti í morg­un á opnunarviðburði ráðstefn­unnar Arctic Circle í Hörpu. 

Katrín hefur ávallt lagt áherslu á í máli sínu um norðurslóðir að svæðið yrði herlaust í framtíðinni og á því var engin breyting í dag. Hún sagði Ísland ávallt hafa lagt áherslu á frið og samvinnu ríkja á norðurslóðum. „Það er sameiginleg ábyrgð okkar að stuðla að friði og stöðugleika á norðurslóðum og koma í veg fyrir landfræðistjórnmálaleg átök,“ sagði Katrín meðal annars. 

Ekki nóg að minnka kjötneyslu og hjóla

Katrín sagði grænar lausnir vera á meðal þess sem leggja ætti áherslu á þegar kemur að málefnum norðurslóða. Þá vísaði hún í nýlega skýrslu IPCC sem gefur til kynna að loftslagsbreytingar eru að eiga sér stað hraðar en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. „Skýrslan undirstrikar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á norðurslóðum,“ sagði Katrín.  

Þá benti hún á nýjar tölur sem sýna að 100 stórfyrirtæki bera ábyrgð á losun 70% gróðurhúsalofttegunda frá því á 7. áratug síðustu aldar. Hún sagði stærstu fyrirtæki heims verða að axla ábyrgð. „Á meðan einstaklingar minnka kjötneyslu, ferðast um á hjóli eða keyra rafmagnsbíl duga þeir ekki einir og sér,” sagði Katrín og ítrekaði að stórfyrirtæki þurfi að grípa til róttækra aðgerða. 

Dirfist ekki að mótmæla Gretu Thunberg

Katrín tók í sama streng og Ólafur Ragnar hvað varðar áhrif ungs fólks um málefni norðurslóða og umhverfismála almennt. 

„Ungmenni um heim allan hafa mótmælt svo mánuðum skiptir. Mótmæli þeirra byggja á fyrirliggjandi vísindum og ætti að vera okkur öllum hvatning. Við ættum að hlusta af athygli á unga fólkið sem skrópar í skólann til að mótmæla fyrir loftslagið og safnast saman fyrir utan þinghúsin viku eftir viku. Þau krefja stjórnmálamenn um aðgerðir og stjórnmálamenn verða að vera meðvitaðir um að lausnir á loftslagsvánni eru til staðar,” sagði Katrín. 

Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddu meðal …
Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddu meðal annars mótmæli ungs fólks gegn loftslagsbreytingum í pallborðsumræðum á opnun Arctic Circle ráðstefnunnar í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, kom einnig inn á mikilvægi þess að hlusta á unga fólkið í sínu ávarpi. Hann vísaði í orð Gretu Thunberg í New York í síðasta mánuði þar sem hún spurði hvernig stjórnmálamenn dirfðust að ræna hana og önnur ungmenni draumum þeirra og æsku. Rinne sagðist alls ekki dirfast þess og lagði áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld um allan heim grípi til aðgerða. 

Katrín lauk ávarpi sínu á að undirstrika mikilvægi þess að halda í vonina.

„Ég veit að hér eru allir vongóðir og er umhugað um framtíð norðurslóða. Við ættum öll að setja stjórnmálaskoðanir og ágreining til hliðar og sameinast í vilja okkar til að vernda norðurslóðir. Verkefnið er risavaxið en lausnirnar eru til staðar. Það er okkar hlutverk að koma hlutunum í verk og vekja von í brjóstum jarðarbúa því von er það sem við þurfum,” sagði Katrín. 

mbl.is