Öllum steinum velt við á LSH

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans mbl.is/Golli

Viðhaldi verður að einhverju leyti frestað, ítrasta aðhalds gætt við innkaup, launafyrirkomulag endurskoðað og ekki verður ráðið í  vissar stöður sem losna. Þetta er meðal þeirra sparnaðaraðgerða sem ráðist verður í á Landspítala. Gangi þær eftir verður kostnaður við rekstur spítalans skorinn niður um tæpan milljarð á þessu ári og tvo og hálfan milljarð á ársgrundvelli, þ.e. á næsta ári. 

Sex mánaða uppgjör spítalans, sem birt var í sumar, sýndi að að óbreyttu stefndi í hátt í fimm milljarða króna framúrkeyrslu í ár. Þessar aðgerðir eru til þess ætlaðar að bregðast við því. Lögum samkvæmt hefur heilbrigðisráðherra verið greint frá stöðu mála og Páll Matthíasson forstjóri Landspítala segir gott samstarf við ráðuneyti og Alþingi um mögulegar lausnir á þessum vanda.  Hann segir að föst hagræðingarkrafa upp á 5-7% hafi verið lögð á allar stoðdeildir spítalans og að nokkurs óróa gæti meðal starfsfólks vegna fyrirhugaðra aðgerða.

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laun stjórnenda lækkuð um 5%

Meðal þeirra aðgerða sem þegar hefur verið ráðist í er að lækka laun stjórnenda, en laun framkvæmdastjóra spítalans, hafa nú verið lækkuð um 5%, jafnframt því að fækkað var í framkvæmdastjórninni um næstum því helming eftir skipulagsbreytingar um síðustu mánaðamót.  Spurður hvort fólk hafi verið sátt við að láta lækka laun sín segir Páll fullan skilning hafa verið á því. „Þegar staðan er svona, þá áttar fólk sig á því að það þarf að leggja sitt af mörkum,“ segir Páll.

Önnur aðgerð sem þegar er komin í framkvæmd er aðhald í innkaupum, ýmis konar risnu og ferðakostnaði.  Hefur ekki verið aðhald að þessu leyti hingað til? „Jú, að sjálfsögðu. En það má alltaf gera betur, alltaf skoða málin á nýjan hátt og það er það sem við erum að gera núna. Innkaup spítalans eru hátt á annan tug milljarða á ári, ef okkur tekst með auknum fókus og aðhaldi að spara 1%, þá erum við strax farin að tala um ríflega 100 milljóna sparnað.“

Landspítali
Landspítali mbl.is/Þórður

Forðast uppsagnir

Páll segir að fresta eigi viðhaldsverkefnum eins og hægt verði. Undanfarið hefur ítrekað komið upp mygla og annars konar skemmdir á húsnæði spítalans - er hægt að fresta viðhaldi? „Við erum reyndar talsvert betur í sveit sett núna en við vorum varðandi fjármagn til endurbóta og viðhalds þannig að staðan er miklu betri en hún var fyrir nokkrum árum. Við teljum að þó við drögum aðeins úr þar, þá komi það ekki að sök.“

Páll segir að forðast verði í lengstu lög að segja fólki upp. Nýta eigi eðlilega starfsmannaveltu á þessum stóra vinnustað til að fækka starfsfólki. Leitast eigi við að ráða sem minnst í staðinn fyrir fólk sem segir upp eða hættir vegna aldurs. „Þetta er næstum því 6.000 manna vinnustaður með mörg hundruð manna starfsmannaveltu á ári og við teljum að þarna gefist tækifæri til sparnaðar,“ segir Páll.

Kjarasamningar hafa reynst dýrir

Eitt af því sem stjórn spítalans skoðar nú í samráði við stjórnvöld eru launabætur sem spítalinn gæti hugsanlega fengið frá ríkinu. Páll segir að með því sé átt við að kostnaður hafi verið vanmetinn við ýmsa kjarasamninga sem hafi verið gerðir við helstu stéttir við spítalann og um sé að ræða mjög háar upphæðir sem hlaupi á milljörðum.   „Landspítali semur ekki um laun starfsmanna, það gerir ríkisvaldið sem svo greiðir stofnununum þann kostnað sem af hlýst; svokallaðar launabætur. Í samningi sem gerður var við lækna 2015 var mörg nýlunda og hann var ekki verðmetinn rétt af samningsaðilum, þannig að hann hefur kostað okkur u.þ.b. hálfum milljarði meira á hverju ári síðan þá en til stóð. Við erum þessa dagana að fara yfir þessa útreikninga með stjórnvöldum og fjárlaganefnd Alþingis.“

Páll segir að nú verði aðhalds gætt sem aldrei fyrr í lyfjainnkaupum. Spurður nánar út í fyrirkomulag þess segir hann að það felist m.a. í fræðslu til lækna um ódýrustu lyfin hverju sini og eftirfylgd með því að spítalinn sé að nota ódýrustu samheitalyf verði aukin. Einnig á að nota rannsóknir á markvissarri hátt. 

Hafið þið verið að gera rannsóknir að óþörfu? „Nei, það er ekki málið, svarar Páll. „Heldur snýst þetta um bætta ákvarðanatöku og markvissari rannsóknir.“

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytingar á kjörum 

Til stendur að gera ýmsar breytingar á kjörum starfsfólks. Til að mynda tilraunaverkefnið Hekluverkefni, sem fólst m.a. í álagsgreiðslum til hjúkrunarfræðinga til að fást við langvarandi mönnunarvanda á spítalanum verður lagt af. Til stendur að það verkefni falli niður við gerð næstu kjarasamninga. Vaktaskipulag, sérstaklega lækna, verður endurskoðað og sömuleiðis greiðslur vegna fastrar yfirvinnu starfsfólks. Leitast verður við að tryggja að starfsfólk taki vaktafríi og áunninn frítökurétt út, frekar en að slíkur réttur safnist upp eða verði greiddur út. „Yfir 70% af kostnaði spítalans eru laun,“ segir Páll.

Aðalfókusinn að vernda þjónustuna

Óttist þið ekki að missa starfsfólk við þessar breytingar? „Við vonum að við mætum áhyggjum starfsfólks með bættu vinnuskipulagi. En auðvitað taka aðhaldsaðgerðir alltaf á,“ segir Páll. 

Eru þetta mestu aðhaldsaðgerðir sem spítalinn hefur farið í? „Nei, þær voru meiri eftir hrunið þegar spítalinn var tekinn niður kostnaðarlega um 20%. Við erum ennþá að súpa seyðið af þeim.“

Það er ekkert nýtt að spítalinn þurfi að spara.... „Nei, það er ekkert nýtt. En núna þurfum við að gera enn betur.“

Er ekki vonlaust verkefni að reka Landspítalann innan fjárlaga? „Það er enn ekki búið að samþykkja fjárlög, þannig að við vitum ekki enn hvað við fáum, hver ramminn verður. Okkar markmið er alltaf annars vegar að ná jafnvægi á milli þess að veita sem besta þjónustu og að vera með sem bestan vinnustað og hins vegar að vera innan ramma fjárlaga. Þetta er ákveðin jafnvægiskúnst, en við vorum t.d. síðast innan fjárlaga árið 2016 og ekki langt frá því 2017. Aðalfókusinn er, og mun alltaf vera, að vernda þjónustu við sjúklinga“

mbl.is