„Aldrei upplifað svona vitleysu“

Fundur Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag skilaði …
Fundur Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag skilaði engum árangri. Blaðamenn greiða væntanlega atkvæði um verkfallsaðgerðir í næstu viku. mbl.is/Golli

„Að óbreyttu stefnir bara í átök, því miður,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. Hann segir fund dagsins með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu ekki hafa skilað neinum árangri og að ekki sé útlit fyrir annað en að blaðamenn greiði atkvæði um verkfallsaðgerðir á miðvikudaginn í næstu viku nema grundvallarbreyting verði á viðhorfum viðsemjenda hjá Samtökum atvinnulífsins.

„Það eru þrjár vikur síðan við slitum viðræðum og sex mánuðir liðnir frá því að samningar við iðnaðarmenn voru gerðir og sjö mánuðir frá því að samningar við verslunarfólk og verkafólk voru gerðir, þannig að það er náttúrulega gjörsamlega óþolandi að það sé ekki löngu búið að semja við blaðamenn. Við getum ekki beðið lengur eftir fólki sem er ekki tilbúið til þess að semja við okkur um það sama og aðrir hafa fengið,“ segir í Hjálmar í samtali við mbl.is.

Hjálmar Jónsson formaður BÍ.
Hjálmar Jónsson formaður BÍ.

Hjálmar segir aðgerðaáætlun blaðamanna svo gott sem klára, en eins og hún lítur út í dag er stefnt að verkfallsaðgerðum á föstudögum í nóvembermánuði, sem muni fyrst beinast að netmiðlum og ljósmyndadeildum fjölmiðlanna.

„Við munum svo bæta í eftir því sem líður á mánuðinn og grípa til aðgerða á blöðunum í lokin ef viðsemjendur okkar sjá ekki ljósið,“ segir Hjálmar.

„Auðvitað er þetta óyndisúrræði en auðvitað verða blaðamenn eins og aðrar stéttir í þessu landi að standa með sjálfum sér og sínum kjörum. Laun blaðamanns með eins árs starfsreynslu og háskólanám á bakinu eru 400.853 kr. og ég fullyrði það að það er engin háskólamenntuð stétt í þessu landi sem er með jafn léleg laun. Þannig er nú það — og það er verkefnið að lagfæra það,“ segir Hjálmar.

Formaðurinn segir að hann telji Samtök atvinnulífsins hafa „haldið alveg hörmulega“ á málum fyrir hönd þeirra fyrirtækja í fjölmiðlarekstri sem eru aðilar að kjarasamningum á milli BÍ og SA.

„Sex mánuðum eftir að samið er við iðnaðarmenn er okkur gert tilboð, sem er minna heldur en iðnaðarmenn fengu fyrir sex mánuðum. Það er skjalfest að það er minna, og ég hef aldrei upplifað svona vitleysu, ég segi það bara alveg eins og er. Og ég held upp á það í ár að hafa verið 30 ár í samninganefnd Blaðamannafélagsins og í tíu ár þar á undan skrifaði ég um kjarasamninga fyrir Morgunblaðið,“ segir Hjálmar.

Segir kröfur félagsins skýrar og hógværar

Hjálmar segir að meginkrafa Blaðamannafélagsins lúti að því að fá þá 8,33% vinnutímastyttingu — sem samið hefur verið um við aðrar stéttir — fremur í launaumslagið í formi grunnlaunahækkana, þar sem stytting vinnutímans nýtist blaðamönnum ekki. Hann segir að þetta krefjist þess að hugsað sé út fyrir kassann í viðræðum við blaðamenn, en það hafi viðsemjendurnir ekki viljað gera.

Hjálmar segir ljóst að blaðamenn geti ekki endalaust sinnt störfum sínum af áhuganum einum saman. „Þú þarft að eiga fyrir salti í grautinn og það geta ekki allir átt maka í góðri vinnu svo þeir hafi efni á að sinna þessu áhugamáli sínu,“ segir Hjálmar.

„Það liggur fyrir að laun blaðamanna hafa dregist aftur úr um 15% á síðustu sex árum ef þú bara miðar við launavísitölu Hagstofu Íslands og hækkanir blaðamanna á sama tíma. Það verður ekkert um þetta deilt og þetta er lykilatriði, að hækka þessi grunnlaun. Það er hægt, en við erum ekki að fara út fyrir neinn ramma eða brjóta neitt slíkt, ég fullyrði það og get rökstutt það á margvíslegan hátt. Við þurfum bara að vera menn til að standa með sjálfum okkur og ég efast ekkert um það, ég er búinn að kynna þetta á vinnustöðum og ég finn ekki annað en að það sé 100% samstaða um þessar sanngjörnu kröfur okkar og við erum mjög sanngjarnir og raunhæfir í því sem við erum að leggja til,“ segir Hjálmar.

Formaðurinn segist átta sig á því að staða fjölmiðlafyrirtækja sé almennt erfið þessa stundina og í því ljósi séu blaðamenn ekki að fara fram á allt sem þeir í raun og veru ættu að fara fram á.

„Okkar tillögur eru mjög raunsæjar og til þess fallnar að byggja undir þessa stétt, því það verður auðvitað að tryggja það að það fáist fólk til að sinna þessum vandasömu störfum. Það fæst ekki endalaust með því að blaðamenn hafi áhuga á sínu starfi og það sé gaman í vinnunni, það er ekki nóg — því miður,“ segir Hjálmar.

Tekið skal fram að blaðamaður og flestir aðrir blaðamenn á ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins eru félagar í Blaðamannafélagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert